FIMMTUDAGUR 30. MARS NÝJAST 23:48

Segja bréf May fela í sér hótanir

FRÉTTIR

IKEA-ást

 
Bakţankar
07:00 29. NÓVEMBER 2016
Erla Björg Gunnarsdóttir.
Erla Björg Gunnarsdóttir.

Síðustu misseri hefur IKEA lækkað vöruverð til neytenda um leið og krónan stígur hálft skref upp á við. Farið í heilbrigða samkeppni við aðrar verslanir og nánast gefið lýðnum okkar ástkæru MALM-kommóður. Nýjustu fréttir eru að fyrirtækið ætli að borga 350 starfsmönnum fyrirtækisins þrettánda mánuðinn á næsta ári vegna góðs gengis. Ekkert verið að stinga níutíu milljónunum í vasann á þeim bænum.

Fyrir utan góða starfsmannastefnu og heilbrigða samkeppni þá hefur IKEA fylgt mér svo fallega í gegnum lífið. LACK, KALLAX og aðrar ódýrari vörulínur fylltu stúdentaíbúðina. Á flutningi milli landa hef ég fundið grið í sænskum kjötbollum og þótt ég hafi haldið þá að með aldrinum yrði IKEA of sjoppulegt fyrir mig þá var það hinn mesti misskilningur. IKEA hefur haldið fast í höndina á mér í gegnum skilnað og flutninga síðustu ár. Ég hef bara fært mig yfir í STOCKHOLM.

Svo hef ég aldrei skilið tal um að það versta sem maður geri í sambandi sé að fara í IKEA saman. Hvaða vitleysa? Þetta er eitt það rómantískasta sem ég veit um. Labba saman hönd í hönd í gegnum framtíðardrauma. Í tilhugalífinu leyfir maður ósögðum hugmyndum um sambúð að liggja í loftinu og fær hlýtt í hjartað við að vera sammála um lit á sófapúðum. Í sambúð hendir maður krökkunum í Småland og fær sér rómantískan göngutúr sem endar með rjómaís með dýfu. Tvö ein í heiminum á gráum göngugötum IKEA-landsins.

Alþýðuhjartað mitt slær fyrir heiðarleika fyrirtækisins. Og heimilið mitt, sem talar reiprennandi sænsku, er þakklátt. Ég vona bara að fleiri taki sér IKEA til fyrirmyndar og fari að átta sig á því að í dag er töff að vera næs.
 
Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu.


Deila
Athugiđ. Allar athugasemdir eru á ábyrgđ ţeirra er ţćr rita. Vísir hvetur lesendur til ađ halda sig viđ málefnalega umrćđu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til ađ fjarlćgja ćrumeiđandi eđa ósćmilegar athugasemdir og ummćli ţeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

 

MEST LESIĐ

  • Nýjast á Vísi
  • Mest Lesiđ
  • Fréttir
  • SKOĐUN
  • Viđskipti
  • Lífiđ
Fara efst