Innlent

Íhuga að gefa börnunum kók vegna vatnsskorts

Fjölskylda í Úlfarsfelli er orðin langþreytt á viðvarandi vatnsskorti og gruggugu vatni úr krönunum. Hún rekur vatnsskortinn til hrossa sem ganga á brunnvatni, en segir aðgang að hreinu vatni vera mannréttindi.

Fjölskyldan býr í Akurholti í um kílómetra fjarlægð frá nýrri byggð í Úlfarsfellinu. Alls sækja fjögur hús í nágrenni fjölskyldunnar yfirborðsvatn í sama brunn og hún, en hefðbundnar vatnsæðar hafa ekki verið lagðar að húsunum. Þau segja brunninn varla hafa getað annað vatnsneyslu íbúanna um langt skeið, en ástandið hafi versnað til muna eftir að Reykjavíkurborg leigði út hagabeit á landinu fyrir neðan, þar sem hestamenn brynna til viðbótar hrossum úr brunninum og lindin tæmist.

Börnin verða að fara saman í bað

Nú glími þau við vatnsskort svo dögum skiptir, en úr krönunum hafi annaðhvort ekkert vatn komið eða gruggugt síðan á föstudag. Vinir og vandamenn hafa lagt þeim til hreint vatn til daglegra nota í tveggja lítra gosflöskum.

Hanna Björk Kristinsdóttir og eiginmaður hennar eiga þrjú ung börn sem þurfa þegar verst lætur að fara öll í bað saman þar sem vatnið dugir ekki til annars.

Vatn eða kók?

„Það er í raun hrein skelfing að vakna hvern einasta dag og hafa áhyggjur af því hvort við höfum vatn eða ekki af því að búum í 113 Reykjavík," segir Hanna. Hún og eiginmaður hennar geti því ekki gefið börnunum ferskt vatn. „Þetta er orðið spurning hvort sé gáfulegra að gefa þeim kók með kvöldmatnum af því að það er undir gæðaeftirliti en vatnið ekki."

Hanna gagnrýnir að íbúum séu ekki tryggt vatn og minnir á nýlega ályktun Sameinuðu þjóðanna um að aðgangur að hreinu vatni séu mannréttindi. Fjölskyldan hefur óskað eftir því við Orkuveitu Reykjavíkur að tengja húsin við vatnsveitulagnir, en því hefur Orkuveitan hafnað þar sem ekki liggi fyrir deiliskipulag á svæðinu. Vilji húsin tengjast dreifikerfi fyrirtækisins verði þau að gera það á eigin kostnað.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×