Viðskipti innlent

Iceland Express fjölgar starfsmönnum vegna aukinna umsvifa

Iceland Express hyggst færa út kvíarnar næsta sumar og fljúga daglega til New York frá og með júníbyrjun. Félagið mun líka fjölga áfangastöðum í Bandaríkjunum og fljúga fjórum sinnum í viku til Boston. Einnig verður flogið til Chicago. Þessi auknu umsvif Iceland Express kalla á fjölgun starfsmanna hjá félaginu.

Matthías Imsland, forstjóri Iceland Express, segir í tilkynningu um málið að á undanförnum vikum hafi orðið veruleg fjölgun ferðamanna frá Norður-Ameríku hér á landi. Það megi rekja til aukinnar samkeppni á flugleiðinni vestur um haf. "Þeim fjölgar mest, sem dvelja hér á landi í tvo til fjóra sólarhringa á leið sinni yfir hafið. Fjöldi fólks hefur atvinnu af að veita þessu fólki þjónustu," segir Matthías.

„Það er einfaldlega krafa okkar farþega að við fjölgum ferðum og bætum við áfangastöðum," segir Matthías. „New York-flugið okkar gekk mun betur en við þorðum að vona, enda hefur sætanýting verið vel yfir 90 prósent það sem af er og uppselt í margar ferðir."

Matthías segir, að strax og ákvörðun var tekin um að fljúga til Bandaríkjanna hafi forsvarsmenn félagsins litið svo á, að það væri aðeins fyrsta skrefið í þá átt. „Menn gerðu sér þó ekki vonir um að viðbrögðin yrðu eins og raun ber vitni. Til að mæta þessum góðu viðtökum ákváðum við eftir aðeins nokkurra vikna sölu að fljúga til New York allan ársins hring og nú höfum við ákveðið að fljúga daglega þangað næsta sumar og bæta við nýjum áfangastöðum."









Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×