Enski boltinn

Perez hetja Newcastle gegn Liverpool | Sjáðu markið

Anton Ingi Leifsson skrifar
Perez að setja boltann í netið.
Perez að setja boltann í netið. vísir/getty
Ayoze Perez var hetja Newcastle þegar liðið sigraði Liverpool á heimavelli í fyrsta leik dagsins í enska boltanum. Sigurmarkið kom stundarfjórðungi fyrir leikslok.

Fyrri hálfleikur var ekki mikið fyrir augað. Leikur Liverpool var frekar fyrirsjáanlegur og hægur. Gstirnir lágu til baka og beittu skyndisóknum, en staðan var markalaus þegar liðin gengu til búningsherbergja.

Alan Pardew henti Ayoze Perez inná í hálfleik í stað Papiss Cisse og hann átti heldur betur eftir að þakka traustið. Hann skoraði sigurmarkið stundarfjórðungi fyrir leikslok eftir afar klaufalegan varnarleik Alberto Moreno.

Heimamenn fengu svo tækifæri til að tvöfalda forystuna, en Remy Cabella náði ekki að koma boltanum framhjá Simon Mignolet.

Gestirnir frá Bítlaborginni gerðu allt hvað þeir gátu til að skora, en allt kom fyrir ekki og lokatölur 1-0 sigur Newcastle. Fjórði sigur Newcastle í röð staðreynd.

Newcastle fór með sigrinum upp í tíunda sæti deildarinnar, en þeir eru með þrettán stig. Liverpool er í sjöunda sæti með fjórtán stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×