Körfubolti

Umfjöllun og viðtöl: Grindavík - FSu 85-94 | Baráttuglaðir Selfyssingar tóku stigin tvö í Röstinni

Kristinn Páll Teitsson í Röstinni í Grindavík skrifar
Jón Axel Guðmundsson, leikstjórnandi Grindavíkur.
Jón Axel Guðmundsson, leikstjórnandi Grindavíkur. vísir/stefán
Baráttuglaðir Selfyssingar náðu að hefna fyrir tapið í fyrstu umferðinni og sækja stigin tvö í 94-85 sigri á Grindavík í Röstinni í kvöld en FSu náði forskotinu í upphafi seinni hálfleiks og hélt því allt til loka leiksins.

FSu setti tóninn fyrir seinni hálfleikinn með því að setja fyrstu fimm stig seinni hálfleiksins og litu Selfyssinga aldrei aftur eftir það.

Náðu þeir góðu forskoti sem þeir héldu allt til loka leiksins eftir að hafa verið undir mest allan  fyrri hálfleikinn.

Var þetta fyrsti leikur liðanna eftir þriggja vikna frí en Dominos-deildin hófst aftur eftir jólafrí í kvöld og lýkur 12. umferðinni annað kvöld.

Með sigrinum nálgast FSu næstu lið í töflunni en Selfyssingar geta komist upp að hlið ÍR þegar liðin mætast í næstu umferð.

Þessi lið mættust í fyrstu umferð deildarinnar í vetur í fyrsta leik FSu í deildinni en Grindvíkingar tóku stigin tvö þaðan með dramatískum eins stiga sigri á heimavelli FSu.

Liðin skiptust á körfum í upphafi leiksins en heimamenn í Grindavík voru yfirleitt skrefinu á undan í fyrri hálfleik og leiddu 23-19 að loknum fyrsta leikhluta.

Grindvíkingar náðu um tíma sex stiga forskoti í öðrum leikhluta leiksins en leikmenn FSu voru fljótir að svara öllum áhlaupum Grindvíkinga og náðu að minnka muninn aftur niður í þrjú stig fyrir lok fyrri hálfleiks í stöðunni 56-53.

Selfyssingar komu mun baráttuglaðari inn í þriðja leikhluta leiksins og hófu seinni hálfleikinn á 11-2 spretti og voru skyndilega komnir með sex stiga forskot í upphafi þriðja leikhluta.

Leiddu Selfyssingar, líkt og í fyrri leik liðanna að þremur leikhlutum loknum 74-66 en Grindavík gerði atlögu að forskotinu á upphafsmínútum fjórða leikhluta.

Náðu Grindvíkingar að minnka muninn niður í þrjú stig á upphafsmínútum fjórða leikhluta en lengra komust heimamenn ekki og héldu FSu góðu forskoti út fjórða leikhluta og unnu að lokum níu stiga sigur.

Christopher Woods átti enn einn stórleikinn í liði FSu en hann hefur heldur betur reynst liðinu happafengur síðan hann skrifaði undir í nóvember. Var hann atkvæðamestur í liði FSu með 26 stig en hann tók ásamt því 20 fráköst.

Í liði heimamanna var það Þorleifur Ólafsson sem var atkvæðamestur með 22 stig en Jón Axel Guðmundsson bætti við tvöfaldri tvennu, 14 stigum og 13 fráköstum.

Ari: Fyrsti leikurinn eftir jól er alltaf erfiður„Þetta var frábær sigur. Fyrsti leikurinn eftir jól er alltaf erfiður og við sýndum frábæran karakter hérna í kvöld og kláruðum þetta,“ sagði Ari Jósepsson, leikmaður FSu, brattur að leikslokum.

Ari sagði leikmennina hafa verið ákveðna í að svara fyrir fyrri leik liðanna á þessu tímabili þar sem Grindavík vann nauman sigur á lokametrum leiksins.

„Við klúðruðum þeim leik algjörlega. Við vissum að þeir væru án nokkurra lykilleikmanna í kvöld en að þetta yrði erfiður leikur. Spilamennskan í seinni hálfleik hérna í kvöld var algjörlega frábær.“

Ari sagði að leikmenn liðsins væru í frábæru standi eftir góðar æfingar um jólin.

„Við áttum frábærar æfingar þessar þrjár vikur. Við hvíldum eftir síðasta leik en áttum svo sennilega bestu æfingar vetrarins á milli jóla og nýárs og undirbúningurinn þar hjálpaði okkur í kvöld.“

Ari var ánægður með alla leikmenn liðsins í kvöld.

„Við erum búnir að vinna mikið í liðsheildinni og það skiluðu allir góðu hlutverki í kvöld. Christopher-arnir tveir voru flottir, Woods frákastaði vel sem var jákvætt og svo kom Tóti vel inn í þetta í kvöld,“ sagði Ari að lokum.  

Jón Axel: Erum hundfúlir með þetta„Við erum hundfúlir með þetta. Við byrjuðum leikinn vel en það datt allur botn úr spilamennsku okkar í seinni hálfleik,“ sagði Jón Axel Guðmundsson, leikmaður Grindavíkur, ósáttur að leikslokum í kvöld.

 

„Við hættum að hitta úr skotunum og fórum að tuða í dómurunum í staðin á sama tíma og þeir fóru að hitta úr skotunum. Vörnin okkar var ekkert sérstök í þriðja leikhluta.“

Eftir að hafa verið þremur stigum yfir í hálfleik voru Grindvíkingar átta stigum undir fyrir lokaleikhluta leiksins í kvöld.

„Að mínu mati hættum við bara að spila vörn í þriðja og fjórða leikhluta og hættum að hitta úr skotunum okkar. Þar liggur tapið í kvöld,“ sagði Jón sem sá jákvæða punkta þrátt fyrir tapið.

„Spilamennskan í fyrri var góð, sérstaklega þegar litið er til þess að við söknum nokkurra leikmanna en við eigum að vera með nægilega marga góða leikmenn til þess að klára þennan leik.“

Jón Axel var vonsvikinn með andleysið í liðinu í seinni hálfleik.

„Ef við erum upp á okkar besta þá eigum við að vinna þennan leik. Hefðum við barist meira hefðu úrslitin eflaust orðið önnur, það vantaði upp á baráttuna hjá okkur í kvöld.“  

Erik: Litum loksins út eins og liðið sem við viljum vera„Tilfinningin er frábær, við sóttum sigur á erfiðan heimavöll gegn reynslumiklu liði. Þótt að þeir hefðu saknað leikmanna í kvöld er þetta erfiður völlur að koma á,“ sagði Erik Olsen, þjálfari FSu, himinlifandi í viðtölum eftir leik.

„Þetta var verðskuldaður sigur að mínu mati. Þeir voru yfir en okkur tókst að ná forskotinu gegn reynslumiklu liði og halda forskotinu út leikinn.“

Erik var ánægður með spilamennskuna í fyrsta leik liðsins eftir jólafrí en FSu æfði af kappi í fríinu.

„Við litum loksins út eins og liðið sem við viljum vera í kvöld. Við reyndum að safna kröftum og fara yfir hluti sem við viljum gera í jólafríinu. Við lítum á þennan hlut tímabilsins sem nýtt tímabil og ég er mjög ánægður með það hvernig strákarnir brugðust við í kvöld.“

Erik tók undir að það væri ákveðið þroskamerki að kunna að loka leikjum eins og þessum.

„Við vildum sýna að við hefðum lært eitthvað á fyrri hluta tímabilsins og á mistökunum sem við gerðum í þeim leikjum. Þeir þurftu að læra að þótt þú spilir vel í 35 mínútur vinnuru ekki marga leiki ef þú átt lélegar fimm mínútur í lokin. Við komumst loksins yfir þetta þrep en þetta verður erfiðara með hverjum leik.“

Erik hrósaði vinnusemi leikmanna sinna í seinni hálfleik en leikmenn FSu virtust einfaldlega vera ákveðnari í seinni hálfleik.

„Við erum ekki stjörnum prýtt lið og fyrir vikið er alltaf frábært að ná sigrum á útivelli. Það er alltaf erfitt að vinna leiki á útivelli í þessari deild og við getum vonandi notað þá reynslu sem við fengum hér í kvöld í næstu leikjum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×