Innlent

Í anda stefnu flokksins að klára viðræður

Benedikt Jóhannesson
Benedikt Jóhannesson
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, lýsti því yfir á sunnudag að draga beri aðildarumsókn Íslands að ESB tafarlaust til baka. Þótt Bjarni hafi áður lýst þessari skoðun hafa orð Bjarna verið talin afdráttarlausari en fyrri yfirlýsingar hans um málið. Benedikt Jóhannesson, formaður Sjálfstæðra Evrópumanna, segir það óráð að draga umsóknina til baka.

„Almennt talað held ég að það sé heppilegt miðað við stöðuna í þjóðfélaginu að halda sem flestum leiðum opnum burtséð frá því hvaða skoðun menn hafa á þessum Evrópumálum,“ segir Benedikt og bætir við: „Ég held að það væri mjög í anda stefnu flokksins að ljúka viðræðunum og fá þann besta samning sem við getum fengið. Nú ef hann er svo ekki nógu góður þá hef ég þá trú á þjóðinni að hún sé nógu greind til að hafna honum. Ég held að það væri mjög vont að taka það af þjóðinni að taka afstöðu til samnings.“

Benedikt segir umræðu um efnahagsvandræði í Evrópu hafa verið áberandi að undanförnu en að þeir erfiðleikar séu ekki ástæða til að vera á móti ESB.

„Það eru auðvitað efnahagserfiðleikar víðar, til dæmis í Bandaríkjunum. En mér sem sjálfstæðismanni hefur hugnast mjög vel sú stefna ESB að vilja jöfnuð í ríkisfjármálum og það að ríki skuldi ekki of mikið. Ég held að það sé einmitt stefna sjálfstæðismanna hér á Íslandi, að það eigi að ná jöfnuði í ríkisfjármálum og minnka skuldir sem allra mest,“ segir Benedikt. „Akkúrat í þessu máli held ég að stefna ESB og Sjálfstæðisflokksins fari afar vel saman,“ segir Benedikt.

- mþl



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×