Innlent

Hyggjast selja þyrluna hérlendis

Yfir jöklinum Matthias Vogt og Markus Nescher hafa ferðast um allt land á þyrlunni. Fólk hefur því víða rekið upp stór augu.mynd/markus Nescher
Yfir jöklinum Matthias Vogt og Markus Nescher hafa ferðast um allt land á þyrlunni. Fólk hefur því víða rekið upp stór augu.mynd/markus Nescher
Matthias Vogt, þyrlueigandi og flugmaður, ætlar að selja fisþyrlu sína hérlendis. Hann flaug henni ásamt Markusi Nescher, félaga sínum, hingað til lands í lok júlí og hafa þeir ferðast um landið síðan.

Vísir.is fjallaði um það á fimmtudag að ævintýramennirnir frá Liechtenstein hefðu tekið eldsneyti á bensínstöð Atlantsolíu í Hveragerði. Það hafa þeir raunar gert um allt land í sumar enda er þyrlan svo létt að hægt er að ýta henni upp að dælunni. Íslenskir þyrlueigendur hafa margir hverjir rekið upp stór augu þegar Vogt hefur flogið yfir, enda slíkar þyrlur sjaldséðar á Íslandi.

„Svona grip rekur ekki á fjörur landsmanna á hverjum degi," segir Hugi Hreiðarsson en hann er í forsvari fyrir Vogt hér á landi.

Þyrlan er af gerðinni Robinson 44 sem er mjög vinsæl meðal lögreglu og fjölmiðla um allan heim. Hún kostar rúmar tuttugu milljónir króna en Vogt flaug henni frá Liechtenstein yfir Ermarsundið og til Hjaltlandseyja og Íslands með viðkomu í Færeyjum. „Þeir eru staddir núna hjá Hala í Suðursveit og eru í raun veðurtepptir," segir Hugi. Seljist þyrlan ekki hér verður hún flutt með Norrænu til baka á meginland Evrópu.

- bþh



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×