Fótbolti

Hvor markvörðurinn er meiri vítabani?

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Hannes horfir á eftir vítaspyrnu Austurríkismannsins Aleksandars Dragovic sem fór í stöngina.
Hannes horfir á eftir vítaspyrnu Austurríkismannsins Aleksandars Dragovic sem fór í stöngina. vísir/vilhelm
Það verður leikið til þrautar þegar Ísland og England mætast í 16-liða úrslitum EM 2016 í Nice í kvöld.

Verði jafnt eftir venjulegan leiktíma þarf að framlengja og ef það verður enn jafnt eftir 30 mínútna framlengingu ráðast úrslitin í vítaspyrnukeppni.

Englendingar hafa miklu meiri reynslu af vítakeppnum þótt hún sé ekkert sérstaklega jákvæð eins og fjallað var um á Vísi í dag.

Hannes Þór Halldórsson hefur spilað mjög vel á EM og hann er með góða tölfræði þegar kemur að vítaspyrnum.

Á sjö tímabilum í efstu deild á Íslandi þurfti Hannes 22 sinnum að glíma við vítaspyrnur. Hann varði átta þeirra auk þess sem tvær fóru forgörðum. Leikmenn efstu deildar á Íslandi nýttu því aðeins 12 af 22 vítum gegn Hannesi.

Hannes var duglegur að verja víti meðan hann lék með KR.vísir/vilhelm
Hannes var í liði Fram sem tapaði fyrir Breiðabliki í vítakeppni í úrslitaleik VISA-bikarsins 2009. Hann varði eina spyrnu Blika, frá Arnóri Sveini Aðalsteinssyni.

Hannes fór út í atvinnumennsku eftir að hafa orðið Íslandsmeistari með KR 2013. Hann hefur þurft að glíma við sjö vítaspyrnur í efstu og næstefstu deild í Noregi og varið þrjár þeirra, þ.á.m. eina frá landa sínum, Birni Daníel Sverrissyni, leikmanni Viking.

Þá vann Hannes vítakeppni með Bodö/Glimt í næstsíðasta leik sínum með liðinu fyrir EM. Hannes og félagar mættu þá Haugesund í 16-liða úrslitum norsku bikarkeppninnar og leikurinn fór alla leið í vítakeppni.

Þar varði Hannes tvær af átta vítaspyrnum Haugesund en vítakeppnin fór í þrefaldan bráðabana.

Hannes hefur þrisvar sinnum þurft að glíma við vítaspyrnur í landsleik, nú síðast gegn Austurríki á miðvikudaginn. Þá skaut miðvörðurinn Aleksandar Dragovic í stöngina. Slóveninn Valter Birsa og Svisslendingurinn Blerim Dzemaili skoruðu hins vegar úr vítum gegn Hannesi í undankeppni HM 2014.

Andrea Pirlo tekur Panenka-víti gegn Joe Hart á EM 2012.vísir/getty
Kollegi Hannesar í marki Englands, Joe Hart, er einnig með fína tölfræði þegar kemur að því að verja vítaspyrnur.

Hart hefur varið 11 af þeim 42 vítaspyrnum sem hann hefur fengið á sig á ferlinum (samkvæmt tölfræði á vefsíðunni Transfermarkt) auk þess sem tvær hafa farið í súginn. Hart hefur m.a. varið víti frá leikmönnum á borð við Lionel Messi, Frank Lampard og Zlatan Ibrahimovic.

Sjá einnig: Nóg fyrir strákana að hitta á markið í kvöld? | Hart var með Leo í gær

Hart hefur einu sinni tekið þátt í vítakeppni með Englandi; gegn Ítalíu í 8-liða úrslitum á EM fyrir fjórum árum.

Hart tókst ekki að verja í vítakeppninni. Ítalir skoruðu úr fjórum af fimm spyrnum sínum en ein fór framhjá. Frægt er þegar Hart reyndi að taka Andrea Pirlo á taugum fyrir þriðju spyrnu Ítalíu. Ítalski snillingurinn lét það ekkert á sig fá og vippaði boltanum snyrtilega í mitt markið.

Vítakeppni Englands og Ítalíu frá EM 2012 má sjá hér að neðan.


Tengdar fréttir

Nú mega lömbin sparka

England og Ísland mætast í fyrsta mótsleik þjóðanna í sögunni á EM 2016 í Nice í kvöld. Í boði er farseðill í átta liða úrslitin á Evrópumótinu í Frakklandi. Síðast mættust liðin í vináttuleik á Manchester-stadium fyrir tólf árum þegar strákarnir okkar voru notaðir sem boxpúðar sem máttu ekki slá á móti.

EM-dagbókin: Af hverju getur Ísland ekki unnið England?

Ég stóð uppi í stúku á Allianz Riviera-vellinum, eða Hreiðrinu eins og við köllum það, og fylgdist með æfingu íslenska liðsins eftir blaðamannafundinn í Nice í gær. Menn voru bara að skokka í hringi eins og alltaf á þessum opnu fimmtán mínútum.

Eggert: Við vinnum England í vító

Eggert Magnússon, fyrrum formaður KSÍ, hefur verið kaffærður með hamingjuóskum eftir velgengni íslenska liðsins á EM.

Lið framtíðarinnar í vandræðum

Þrjátíu ár af sárindum var sungið í laginu Three Lions (Football's Coming Home) þegar það var samið fyrir EM 1996 sem haldið var á Englandi. Þar tapaði liðið í vítaspyrnukeppni í undanúrslitum gegn Þýskalandi sem jók á sársaukann. Tuttugu ár eru liðin og enska liðið þekkir ekkert nema sárindi á stórmótum. Svo mikinn að í dag er textinn "No more years of hurt“.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×