Fótbolti

Hvít-Rússarnir bíða FH-inga slái FH Dundalk út á morgun

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sigurvin Ólafsson reynir skot úr aukaspyrnu í leik FH og BATE árið 2007.
Sigurvin Ólafsson reynir skot úr aukaspyrnu í leik FH og BATE árið 2007. Vísir/Valli
Hvít-rússneska liðið BATE Borisov tryggði sér í kvöld sæti í þriðju umferð forkeppni Meistaradeildarinnar en liðið mætir þar sigurvegaranum úr viðureign Íslandsmeistara FH og Dundalk sem fer fram á morgun.

BATE Borisov var í góðum málum eftir 2-0 heimasigur í fyrri leiknum og gerði síðan út um þetta með því að komast í 2-0 eftir hálftíma leik í kvöld.

Finnska liðið Seinäjoki þurfti þá að skora fimm mörk á síðasta klukktímanum til að komast áfram og það var aldrei að fara að gerast.

Leikmenn Seinäjoki héldu áfram og tókst að jafna metin í 2-2 sem urðu lokatölurnar í leiknum. BATE Borisov vann því 4-2 samanlagt.

Yury Kendysh og Vitali Rodionov skoruðu mörk BATE í fyrri leiknum en að þessu sinni voru þeir Aleksandr Karnitski og Aleksei Rios á skotskónum.

FH-liðið er í ágætum málum eftir 1-1 jafntefli við Dundalk í fyrri leiknum á Írlandi en seinni leikurinn fer fram í Kaplakrika annað kvöld.

Vinni FH leikinn á morgun þá mun liðið mæta BATE Borisov í þriðja sinn í Evrópukeppni. FH mæti hvít-rússneska liðinu einnig 2007 og 2010 í forkeppni Meistaradeildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×