Íslenski boltinn

Hverslags þvæla er það að línuvörðurinn taki völdin? | Myndband

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Umdeilt atvik átti sér stað undir lok fyrri hálfleiks í leik Stjörnunnar og Breiðabliks í 17. umferð Pepsi-deildar karla á mánudaginn.

Guðjón Baldvinsson, framherji Stjörnunnar, fékk þá sendingu inn fyrir vörn Blika, ýtti boltanum framhjá Elfari Frey Helgasyni, miðverði Blika, sem togaði Guðjón í kjölfarið niður.

Vilhjálmur Alvar Þórarinsson, dómari leiksins, virtist ætla að dæma brot og gefa Elfari gult spjald en eftir ábendingu frá aðstoðardómara eitt, Jóhanni Gunnari Guðmundssyni, dæmdi hann brot á Guðjón, Stjörnumönnum til mikillar undrunar.

Sérfræðingar Harðar Magnússonar í Pepsi-mörkunum, þeir Hjörtur Hjartarson og Kristján Guðmundsson, voru álíka hissa á þessari dómgæslu.

„Þetta er bara brot og þótt Arnar (Grétarsson, þjálfari Breiðabliks) segi réttilega að boltinn sé á leið frá markinu er Elfar að ræna Guðjón upplögðu marktækifæri,“ sagði Hjörtur en Jóhann Gunnar flaggaði til marks um hættuspark hjá Guðjóni.

„Þetta er glórulaus dómur, algjörlega út úr korti,“ sagði Kristján um þessa ákvörðun Jóhanns og Hjörtur tók í sama streng.

„Þverslags þvæla er það að línuvörðurinn skuli taka völdin og segja bara nei við dómarann?“ sagði Hjörtur undrandi. Hann sagði Vilhjálm Alvar hafa brugðist rangt við.

„Af hverju tala þeir ekki saman? Af hverju hefur Vilhjálmur Alvar ekki kjark til að standa með sinni ákvörðun.

„Á hvað er línuvörðurinn í ósköpunum að dæma á? Ég held að Vilhjálmur Alvar hafi verið hálf feginn að geta „dömpað“ þessari ákvörðun á línuvörðinn í staðinn fyrir að standa með sjálfum sér í þessu: Ég er dómarinn hérna og ég sá þetta rétt frá byrjun,“ sagði Hjörtur ákveðinn.

Innslagið má sjá í heild sinni í spilaranum hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×