Skoðun

Hvernig tókst aðgerðin?

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir skrifar
Nýbyggingar fyrir Landspítala þola ekki bið. Tíminn er að renna út því frekari dráttur á framkvæmdum grefur undan heilbrigðiskerfinu.

Það er ekkert mál að fjármagna uppbyggingu á húsakosti Landspítala. Þetta kann að virðast djörf fullyrðing um fjárfestingu sem er áætluð tæpir 68 milljarðar króna með nýbyggingum, lagfæringum á eldra húsnæði, sölu eigna og kaupum á tækjabúnaði. Þessi kostnaður dreifist á ríkissjóð næstu 7 til 10 árin og yrði því 7-9 milljarðar árlega næsta áratuginn. Sjö milljarðar eru um 1% af árlegum útgjöldum ríkissjóðs. Rekstrarhagræði af fjárfestingunni verður síðan 2,5 til 3 milljarðar á ári.

Og hvaða gagn höfum við af fjárfestingunni? Við eflum heilbrigðiskerfið með því að laða til okkar og halda í allt það sérhæfða heilbrigðisstarfsfólk sem veigrar sér við að vinna við núverandi aðstæður og við aukum öryggi og bætum líðan sjúklinga með öflugri tækjum, miklu betri aðbúnaði og minni sýkingahættu. Og í hverju felst rekstrarhagræðið? Í dag er sjúkrahúsið rekið í yfir 100 byggingum á 17 stöðum. Bráðamóttökur eru fimm talsins og mikið af starfseminni fer fram á tveimur stöðum, í Fossvogi og við Hringbraut. Fara þarf árlega 9.000 ferðir með sjúklinga í sjúkrabíl á milli starfsstöðva, 25.000 ferðir með rannsóknarsýni og starfsfólk milli staða og 2.500 ferðir upp á Tunguháls þar sem þvottahúsið og dauðhreinsunardeildin eru.

Í hruninu 2008 lögðust þungar skuldir á ríkissjóð. Stjórnvöld á hverjum tíma hafa fengist við það erfiða verkefni að ná niður hallarekstri til að ríkissjóður hætti að safna skuldum. Vaxtagreiðslur af skuldum ríkissjóðs nema tæpum 85 milljörðum árlega. Hallalaus rekstur ríkisins er því augljóslega mikilvægur því annars fara sífellt hærri fjárhæðir í vaxtahítina. En við verðum að gera ráð fyrir útgjöldum til uppbyggingar húsakosts Landspítala og auðvelt er að finna tekjustofnana, t.d. með auðlindagjöldum. Annars verður hallalaus ríkisrekstur hjóm eitt. Þá mætti segja: „Aðgerðin tókst vel en sjúklingurinn dó.“




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×