Skoðun

Hvernig skilgreinum við farsæld og góðan árangur?

Fyrr í mánuðinum sat ég fund með hópi stjórnenda sem saman hafa náð miklum árangri í að byggja upp sitt fyrirtæki. Það er að segja ef við skilgreinum góðan árangur sem það að sexfalda veltu og fimmfalda fjölda starfsmanna á fimm árum. Örum vexti hafa fylgt hinar ýmsu áskoranir og má segja að þessum stjórnendahópi finnist hann oft vera að eltast við skottið á sjálfum sér. Sjaldnar finna þau orðið tíma til að hittast og staldra nægilega lengi við til þess að taka stöðuna á hvert þau eru komin og hvert þau eru að stefna.Farið yfir stöðunaÞó eiga slíkir fundardagar sér stað hjá þeim tvisvar á ári þar sem ég hef það skemmtilega verkefni að aðstoða þau við stíga upp úr daglegu keyrslunni og fara yfir núverandi stöðu, framtíðarmarkmið, forgangsröðun og aðgerðaplön. Ánægjulegt hefur verið að fylgjast með dýnamísku teymi ítrekað fara fram úr eigin væntingum og á síðasta fundi var ljóst að fyrirtækið var komið á stað sem þau hefði aldrei dreymt um fyrir aðeins þremur árum. Þrátt fyrir þetta var hópurinn ekki endilega á því að skilgreina þennan mikla uppgang sem góðan árangur. Umsvif og velta höfðu aukist til muna en það sama mátti segja um flækjustigin. Yfirsýnin var minni, erfiðara reyndist að finna fólk til að vinna sérhæfðari störf, samskipti voru stopulli, álagið og stressið meira, þjónusta við viðskiptavini ekki jafn góð, flókið var að innleiða ný kerfi og ferla sem stærri rekstur krafðist og mótstaða við breytingum áskorun sem þau voru öll að takast á við. Árlegur hagnaður hafði ekki heldur verið í samræmi við aukna veltu enda aukinn kostnaður fylgt auknum umsvifum.Mikill sannleikurVeltu teymið fyrir sér hvort þau ættu óhikað að stefna að frekari vexti eða hvort þau ættu að taka í taumana. Upp kom þá spurningin; hvað er það sem við í rauninni skilgreinum sem farsæld og góðan árangur? Um stund rak þau í rogastans því þeim varð ljóst að þau höfðu í raun aldrei skilgreint sín á milli hvað farsæld og árangur merktu. Í kjölfar umræðu sem skapaðist frá einfaldri spurningu breyttist ýmislegt, djarfar ákvarðanir voru teknar og stefnan varð mun skýrari. Hefur þessi spurning setið í mér síðan og mæli ég eindregið með að fólk prófi hana á sjálfu sér og öðrum. Mikill sannleikur getur leynst þarna á bak við en án þess að spyrja gætum við verið að draga úr skýrri sýn og getu eða jafnvel endað á að fara langt fram úr okkur sjálfum.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×