Íslenski boltinn

Hver verður mótherji Vals í bikarúrslitunum?

Kristinn Páll Teitsson skrifar
KR vann leik liðanna í deildinni, 1-0.
KR vann leik liðanna í deildinni, 1-0. vísir/vilhelm
KR tekur á móti ÍBV í undanúrslitum Borgunarbikarsins í kvöld. Róðurinn verður þungur fyrir Eyjamenn sem litu ekki vel út gegn Stjörnunni í Pepsi-deildinni um helgina.

Verður þetta fjórða árið í röð sem þessi lið mætast á einhverjum tímapunkti í bikarnum og í fimmta sinn á síðustu sex árum. Í þessum fjórum tilraunum hefur ÍBV ekki tekist að sigra KR en allir leikirnir hafa farið fram á Hásteinsvelli þar sem Eyjamenn eru hvað sterkastir. Eyjamenn verða því að hysja upp um sig buxurnar ætli þeir sér að stríða KR-ingunum sem eru á góðum skriði.

Hefur KR ekki tapað leik gegn íslenskum andstæðingi frá 3-0 tapinu á Vodafone-vellinum í upphafi júní. Virðist bikarkeppnin henta KR-ingum sérstaklega vel en KR hefur komist í bikarúrslitaleikinn fjórum sinnum á síðustu fimm árum og orðið bikarmeistari í þrjú skipti af fjórum.

Þá hefur KR ekki tapað á heimavelli í bikarnum frá árinu 2007 en sá sigur Vals kom í Frostaskjólinu eftir vítaspyrnukeppni. Síðasta liðið til að slá út KR í venjulegum leiktíma í Frostaskjólinu í bikarnum var einnig Valur í 2-1 sigri Vals árið 2005.

Leikur KR og ÍBV hefst klukkan 18:00 og verður sýndur í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport. Auk þess verður hægt að fylgjast með leiknum í beinni textalýsingu á Vísi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×