Lífið

Hver er höfundurinn?

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Texti eftir tíu höfunda sem gefa út bók fyrir jólin er með í leiknum.
Texti eftir tíu höfunda sem gefa út bók fyrir jólin er með í leiknum.
Fjölmargar skáldsögur koma út þessi jólin. Vísir tók saman upphaf tíu þeirra svo lesendur geti spreytt sig á fimi sinni við það að þekkja stílbragð íslenskra rithöfunda. Textabrotin eru tengd við höfunda neðst í greininni. 

Höfundar sem koma til greina eru: 



  • Arnaldur Indriðason
  • Bjarni Bjarnason
  • Guðbergur Bergsson
  • Guðrún Eva Mínervudóttir
  • Ingibjörg Reynisdóttir
  • Jónína Leósdóttir
  • Jón Óttar Ólafsson
  • Stefán Máni
  • Steinunn Sigurðardóttir
  • Yrsa Sigurðardóttir


1. „Á þessum einangraða stað var oftast skýjað og dumbungur í lofti og það gerðist aldrei neitt, enda leiddist stúlkunum sem voru komnar að fermingu.“

2. „Ég og Jesú erum eins og tvær akfeitar manneskjur á pínulitlum báti rekumst hvort á annað hlæjandi kinn við kinn vömb við vömb klessast saman

hlæjandi keppirnir dúa undirhökurnar hristast bátsskelin tekur aðra dýfu ég dett á Jesú sem puðrar með vörunum og blikkar mig: Here's looking at you, kid ég dey úr hlátri!“

3.„Hvass vindur blés yfir Miðnesheiðina. Hann kom norðan af hálendinu og yfir úfið hafið á Faxaflóanum og klifraði upp á heiðina, napur og kaldur.“

4.„Kristófer lítur á úrið, svo dregur hann andann djúpt og reynir að slaka á. Hann situr við fjögurra manna borð á kaffihúsinu á fjórðu hæð Perlunnar í Öskjuhlíð með ósnertan kaffibolla fyrir framan sig.“

5.„Fyrir mitt minni, í sveitinni á Brunasandi, byrjaði ég daginn á því að klifra upp á eldhúsborð, klessa nefi á rúðu og gá til jökuls.

„Æ, æ, bless, hann fór í kvöld ... æ, æ, þá ...!“ þuldi ég fram og aftur, ef það sást ekki til hans.“

6.„Þau mynduðu eins konar tröppur á bekknum. Telpan sem var minnst sat við annan endann og eldri bræðurnir tveir við hlið hennar. Eins, þriggja og fjögurra ára. Grannir leggirnir héngu fram af harðri setunni. Ólíkt venjulegum börnum iðuðu systkinin ekki í sætinu og ekkert þeirra sveiflaði fótunum.“

7.„Lestarstöðin í Cambridge var nánast mannlaus. Á brautarpalli 6 stóð maður og beið eftir hraðlestinni frá London. Þetta var meðalmaður á hæð, klæddur gráum jakkafötum, yfirhafnarlaus; dagurinn hafði verið sólríkur og loftið var enn heitt og rakt.“

8.„Ég hafði losað um hálstauið í langþráðu hléi milli skjólstæðinga, farið úr skónum og lagst sjálfur á meðferðarbekkinn þegar ég sá nafn Önnu O blikka á farsímaskjánum. Hún hafði aldrei hringt í mig öll þau ár síðan við skiptumst á númerum.“

9.„Annað hvort ykkar þarf að koma strax heim. Engar afsakanir! Afmælisboð aldarinnar endaði í algjöru rugli áðan … en byrjaði samt eiginlega aldrei.“

10.„Sara veit hvorki í þennan heim né annan. Við hlið hennar sefur næturgestur eins og ungbarn, vafinn inn í mjúka dúnsæng. Það hvílir ró yfir hlýlegri íbúðinni. Á gömlum tekkskenk hringsnýst vínylplata á eikarklæddum „vintage“ Pioneer plötuspilara frá árinu 1975. Nálin í spilaranum hjakkar í djúpri rispu í ágætu lagi hljómsveitarinnar Smokie, Living next door to Alice.“



Svörin eru að finna neðst í greininni. 

























1. Guðbergur Bergsson. Þrír sneru aftur

2. Guðrún Eva Mínervudóttir. Englaryk

3. Arnaldur IndriðasonKamp Knox

4. Stefán Máni. Litlu dauðarnir

5. Steinunn Sigurðardóttir. Gæðakonur

6.Yrsa Sigurðardóttir.DNA

7. Jón Óttar Ólafsson. Ókyrrð

8.Bjarni Bjarnason. Hálfsnert stúlka

9. Jónína Leósdóttir. Bara ef ...

10.Ingibjörg ReynisdóttirRogastanz






Fleiri fréttir

Sjá meira


×