Skoðun

Hvatningarútfararstjórinn hún Xina!

Rúna Magnúsdóttir skrifar
Hún Xina Gooding, sem rekur útfararstofu í Bretlandi, leitaði til mín fyrir skömmu og tjáði mér að hún vissi ekki lengur hvernig hún ætti að finna sérstöðu sína á markaði. Hún væri jú, útfararstjóri og hvernig í ósköpunum gæti hún verið öðruvísi en aðrar útfarar­stofur?

„Ég meina, allir á þessum markaði segjast bjóða upp á góða og persónulega þjónustu,“ og bætti svo við: „Hvað sem það nú þýðir.“ Svo hélt hún áfram og sagði: „Það sem er að rugla mig er hitt áhugamálið mitt í lífinu!“ „Nú?“ hváði ég. „Jú, ég á mér annað áhugamál, sem er alltaf að taka stærri og stærri sess í lífi mínu.“

Svo hélt hún áfram: „Hitt áhugamálið mitt er að vera hvatningarfyrirlesari. Ég fæ beiðnir um að vera með fyrirlestra um allt England og fólk er yfir sig hrifið af því sem ég hef fram að færa. Ég finn að ég næ til fólks, fæ það til að hugsa um líf sitt á annan hátt og sjá tækifærin sem blasa við því. Fólk kemur til mín með tárin í augunum eftir hvern einasta fyrirlestur og vill fá að læra meira.“ „En spennandi,“ svaraði ég, „en segðu mér, hvert er vandamálið?“

„Jú,“ svaraði hún, „þegar ég er með fyrirlestrana mína, þá get ég ekki verið að tengja mig við útfararstofuna. Það gengur ekki upp!“

„Nú?“ svaraði ég og bætti við: „Ef það gengi upp, Xina, hvað myndir þú þá vera?“

Það varð dásamleg þögn í smástund og svo horfði ég á andlit Xinu umbreytast og hún sagði:

„Jemundur minn … ef ég leyfi mér að sameina það sem ég er; það sem gefur mér gleði, tilgang og ég næ árangri með, þá er ég auðvitað „Hvatningarútfararstjórinn“.“

Síðustu fréttir: Útfararþjónusta Xinu í Bretlandi sker sig úr öllum öðrum útfararþjónustum. Það er engin önnur útfararstofa í Bretlandi sem leiðbeinir deyjandi fólki og ættingjum þess að lifa lífinu lifandi áður en það deyr!

Hver er sérstaða þín á markaði?




Skoðun

Sjá meira


×