Innlent

Hvalur „veiddi“ bát

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Línubáturinn Von GK.
Línubáturinn Von GK. Mynd/Gísli Reynisson
Áhöfnin á 15 tonna línubátnum Von GK fékk hval á línuna í gær þar sem veiðarfæri höfðu verið lögð út í Norðfirði. Hvalir eru veiddir með skutli og mjög óalgent er að þeir komi í önnur veiðarfæri. Frá þessu er greint í Aflafréttum. Segja má að hvalurinn hafi gert heiðarlega tilraun til þess að veiða bátinn.

Þar sem sjóveður var ekki gott hafði línan verið lögð innan fjarðar en þegar byrjað var að draga hana inn var greinilegt að eitthvað stærra en þorskur hafði „bitið á“.

Þegar bátsverjar könnuðu málið kom í ljós að hvalur hafði flækt sporðinn í línunni. Línuspilið í bátnum gat með engu móti dregið línuna inn enda kom mikil strekking á hana og sleit hvalurinn til að mynda annan legginn á línunni.

Hér má sjá feril bátsins þegar hvalurinn var fastur á línunni og dró bátinn um fjörðinn.
Hvalurinn reyndi að synda út fjörðinn og línubáturinn dróst einfaldlega með. Þegar hvalurinn slitnaði loks úr línunni var öll strekking farin úr henni.

Það vakti athygli bátsverja að hvalurinn skyldi hafa verið kominn svo langt inn í fjörðinn þar sem dýpi er ekki mikið.

Hér að neðan má sjá myndband sem einn af bátsverjunum tók og birti á Facebook-síðu sinni í gær. Sjón er sögu ríkari.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×