Erlent

Hvalkjöt ekki lengur eftirsótt í japan

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Salan í Japan er nú orðið að mestu bundin við sérverslanir eða sérhæfða veitingastaði.
Salan í Japan er nú orðið að mestu bundin við sérverslanir eða sérhæfða veitingastaði. Vísir/AP
Á seinni árum hefur sala á hvalkjöti verið treg í Japan. Það hefur safnast fyrir í frystigeymslum við hafnir landsins.

Fyrir nokkrum áratugum var hvalkjöt ein helsta uppistaðan í fæðu Japana. Nú er svo komið að það selst varla nema á sérhæfðum veitingastöðum og í sérverslunum, og er þar nokkru dýrara en annað kjötmeti.

Í sumum sjávarplássum, sem hafa leyfi til strandveiða í smærri stíl, er hvalur að vísu oftar á borðum en almennt tíðkast annars staðar í landinu. Þá hefur hvalkjöt verið notað í stórum stíl í skólamáltíðir, en sú notkun þess hefur verið gagnrýnd.

Birgðir af hvalkjöti í frystigeymslum landsins voru 4.600 tonn í lok ársins 2012, en voru 2.500 tonn árið 2002. Þrátt fyrir þetta stefna Japanar á að veiða um 1.300 hrefnur á ári hverju, auk þess sem Íslendingar gera sér vonir um að þeir taki við allt að 2.000 tonnum af kjöti sem verið er að flytja þangað þessa dagana.

Á mánudaginn kemur kveður Alþjóðadómstóllinn í Haag upp endanlegan úrskurð í deilu Ástrala og Japana um hvalveiðar. Ástralar fara fram á að svonefndar vísindaveiðar Japana við Suðurskautsland verði úrskurðaðar ólöglegar, en Japanar segja dómstólinn ekki hafa lögsögu í þessari deilu og vilja að hann viðurkenni það.

Úrskurðurinn nær eingöngu til hvalveiða Japana við Suðurskautsland, en þar hafa þeir veitt um þúsund dýr árlega. Jafnvel þótt úrskurðurinn falli Áströlum í vil, þá breytir það engu um aðrar hvalveiðar Japana, en þeir stunda einnig hvalveiðar í Norður-Kyrrahafi og heima við, út af ströndum Japans.

Í skýrslu sérfræðinga árið 2011 var nefnt að líklega myndu strandveiðar í smáum stíl duga til þess að anna þeirri litlu eftirspurn, sem enn er eftir hvalkjöti í Japan.

Yfirlýst markmið vísindaveiðanna, sem Japanar hafa stundað allt frá árinu 1987, er að kanna hvort hvalveiðar í hagnaðarskyni geti verið sjálfbærar í þeim skilningi að hvalastofnarnir þoli þær, en spurningin virðist nú fremur snúast um það hvort þær borgi sig.

„Það er ekki raunhæft að hefja hvalveiðar í hagnaðarskyni á ný. Þetta markmið er ekki lengur neitt annað en réttlæting þess að halda áfram vísindaveiðum,“ hefur AP-fréttastofan eftir Ayako Okubo, sem er haffræðingur við háskólann í Tokai.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×