Skoðun

Hvaðan koma þeir sem við eigum að kjósa?

Kristinn Steinn Traustason skrifar
Mikil umræða hefur verið í samfélaginu um kynjahlutfall í stjórnmálum. Fyrir borgarstjórnarkosningar nú í vor eru fleiri kvenmenn í framboði en karlar og vonandi verður hlutfall kynja jafnt í borgarstjórn eftir kosningar. Hins vegar hefur lítið verið fjallað um búsetu frambjóðenda en hugsanlega er búseta ekki síður mikilvæg en kyn.

Ef bornir eru saman sex efstu frambjóðendur þeirra flokka sem bjóða fram til borgarstjórnar eftir póstnúmerum kemur í ljós að 50 prósent frambjóðenda búa í póstnúmeri 101 en þar búa um 13% íbúa borgarinnar. Samkvæmt tölum Hagstofunnar búa ríflega 46% borgarbúa í póstnúmerum 109-116 en einungis 19% frambjóðenda í sex efstu sætum flokkanna búa í þessum hverfum.

Þegar áherslur borgarstjórnar á núverandi kjörtímabili eru skoðaðar kemur ekki á óvart að áhugi hefur að langmestu leyti verið á uppbyggingu í þeirra nærumhverfi. Á sama tíma hafa úthverfin setið á hakanum og þau jafnvel töluð niður. Farið hefur verið gegn vilja borgarbúa í austurhluta borgarinnar í skóla- og skipulagsmálum.

Stenst ekki skoðun

Borgarstjórn telur að Reykvíkingar vilji ekki búa í úthverfum, sú skoðun stenst ekki skoðun ef litið er til uppbyggingar í nágrannasveitarfélögunum. Þar er hægt að treysta á skipulag og hraða uppbyggingu hverfa þrátt fyrir „hrun“.

Hvaða útsvarsgreiðendur vill Reykjavík hafa? Það er eðlilegt að flestir borgarbúar á aldrinum 16-24 ára vilji búa miðsvæðis, en hvað vilja þeir tíu árum og tveimur börnum seinna?

Nú þegar ljóst er hvernig flokkarnir stilla upp sínum framboðslistum er spurning hverjir séu best til þess fallnir að þjóna hagsmunum allra borgarbúa. Er hugsanlega kominn tími til að breyta kosningafyrirkomulaginu þar sem borginni er skipt upp í tíu hverfi til samræmis við vinnu að nýju hverfisskipulagi? Í slíku skipulagi mætti tryggja að kjörnir fulltrúar í borgarstjórn yrðu í samræmi við dreifingu íbúa eftir hverfum borgarinnar. Ég hef þá skoðun að núverandi fyrirkomulag þjóni ekki hagsmunum allra borgarbúa. Núverandi úrtak borgarbúa í borgarstjórn endurspeglar ekki nægjanlega vel viðhorf allra borgarbúa. Að mínu mati er búsetuskipting borgarfulltrúa ekki síður mikilvæg en kynjaskipting.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×