Fastir pennar

Hvað kostar nei?

Ólafur Stephensen skrifar
Talsverð vinna hefur verið lögð í að reikna út hvað Icesave-samningurinn muni kosta Íslendinga. Þar er engin ein tala örugg. Samninganefnd Íslands hefur nefnt 32 milljarða, sem er tala byggð á ákveðnum forsendum um meðal annars gengis- og efnahagsþróun og endurheimtur þrotabús Landsbankans. Kostnaðurinn gæti orðið lægri, jafnvel enginn, en líka talsvert hærri, eftir því hvernig mál þróast.

Minna hefur verið fjallað um hvað það kosti, felli kjósendur samninginn í þjóðaratkvæðagreiðslunni eftir rúma viku. Á margar afleiðingar þess er erfitt að leggja mat. Endi Icesave-deilan fyrir dómstólum er fræðilegur möguleiki að Ísland þurfi ekki að borga neitt í innstæðutryggingar, en það gæti líka þurft að borga miklu meira, og á mun óhagstæðari kjörum en um hefur verið samið.

Þetta kostnaðarmat snýst hins vegar eingöngu um innstæðutryggingarnar sjálfar. Annar kostnaður er líklegur til að falla á íslenzka skattgreiðendur, falli Icesave-samningurinn.

Í fréttaskýringu hér í blaðinu í gær var fjallað um þá staðreynd að alþjóðleg lánshæfismatsfyrirtæki hafa boðað endurskoðun á lánshæfiseinkunn Íslands eftir þjóðaratkvæði. Moody‘s hefur þannig sagt að líkur séu á að einkunn Íslands fari í svokallaðan ruslflokk, verði samningnum hafnað.

Viðbrögðin við yfirlýsingu Moody‘s hafa meðal annars verið að rifja upp að lánshæfismatsfyrirtækin hafi gert margháttuð mistök í aðdraganda hinnar alþjóðlegu bankakreppu. Það er réttmæt gagnrýni, en eins og kom fram í fréttaskýringu Fréttablaðsins í gær breytir það ekki þeirri staðreynd að hinn alþjóðlegi fjármagnsmarkaður tekur enn mark á matsfyrirtækjunum og margir fagfjárfestar eru bundnir af reglum, sem gera þeim beinlínis ómögulegt að fjárfesta í skuldabréfum undir tiltekinni lánshæfiseinkunn.

Tómas Ingi Olrich, fyrrverandi sendiherra, segir í blaðinu í gær að með því að gangast við nýjum Icesave-samningi ætti tregðan til að lána hingað peninga enn að aukast, með því að þannig hafi verið aukið á skuldir ríkisins. Lánshæfismatseinkunnir byggjast hins vegar að sjálfsögðu ekki eingöngu á því hversu mikið ríki eða fyrirtæki skulda, heldur hversu líklegt er að þau standi við skuldbindingar sínar. Verði Icesave-samningurinn felldur verður það augljóslega túlkað þannig að Ísland sé ólíklegra en áður til að standa við skuldbindingar sínar.

Tryggvi Þór Herbertsson, hagfræðiprófessor og þingmaður Sjálfstæðisflokksins, reynir í grein í Fréttablaðinu í dag að leggja mat á hvað það þýddi fyrir kostnað við endurfjármögnun skulda opinberra aðila á Íslandi, þ.e. skulda sem skattgreiðendur bera ábyrgð á, ef lánshæfismat landsins lækkaði niður í ruslflokk. Niðurstaða hans er að falli Icesave-samningurinn, myndi það þýða 27-43 milljörðum króna hærri fjármögnunarkostnað á ári fyrir skattgreiðendur, eða 135 til 216 milljarða á fimm árum. Þá tölu ber Tryggvi við hugsanlegan 47 milljarða kostnað við Icesave-samninginn (sem er svartsýnna mat en hjá samninganefnd Íslands).

Kjósendur sem eru að gera upp hug sinn ættu að hafa hugfast að þetta eru 135 til 216 milljarðar, sem líklegt er að leggist á skattgreiðendur til viðbótar við þann kostnað, sem kann að hljótast af töpuðu dómsmáli um Icesave-skuldbindingarnar. Viljum við taka þá áhættu líka?



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.



×