Sport

Hvað er meldóníum?

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Maria Sharapova.
Maria Sharapova. vísir/getty

„Það er lyf sem er aðallega notað við hjartasjúkdómum og skorti á blóðflæði til hjartans,“ sagði Birgir Sverrisson, starfsmaður lyfjaeftirlits ÍSÍ, í samtali við íþróttadeild í gær um meldóníum, lyfið sem felldi Mariu Sharapovu.

Lyfið er framleitt í Lettlandi og aðallega notað í Austur-Evrópu. Þó Sharapova sé rússnesk þá býr hún í Bandaríkjunum og hefur gert stærstan hluta ævinnar. „Hugsanlega hefði hún átt að vita betur en það er erfitt að segja til um það,“ sagði Birgir og bætti við að 4-5 íþróttamenn til viðbótar hafi fallið á ári vegna notkunar lyfsins. En Sharapova sé langstærsta nafnið.

Sjá einnig: Tennisdrottning hrynur af stalli

Meldóníum getur hjálpað íþróttamönnum að auka úthald sitt og að jafna sig fyrr eftir mikil átök. Það hafði verið á eftirlitslista WADA, Alþjóðalyfjaeftirlitsins, í eitt ár og var sett á bannlista því það hefur fundist í sýnum margra íþróttamanna um allan heim.

Af því má ráða að mun fleiri mál lík því sem felldi Sharapovu séu væntanleg úr heimi íþróttamanna. En lögfræðingur hennar segir að það sé fullt tilefni til að henni verði sýnd miskunn.

„Það er langur listi af atriðum sem sýna fram á að utanaðkomandi ástæður réðu inntöku lyfsins. Það ætti að draga stórlega úr hvers kyns refsingu sem yrði beitt.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×