Erlent

Hundrað þúsund Danir ætla að sniðganga Jensen's Bøfhus

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Jensen's Bøfhus er ein stærsta veitingastaðakeðja Danmerkur.
Jensen's Bøfhus er ein stærsta veitingastaðakeðja Danmerkur.
Nú hafa rúmlega 100 þúsund Danir sett nafn sitt við Facebook-síðu þar sem fólk er hvatt til að sniðganga hina þekktu matsölustaðakeðju Jensen's Bøfhus þar í landi.

Fjölmiðillinn Berlingske Tidende greindi frá þessu í dag.

Málið má rekja til dóms Hæstaréttar þar í landi sem kvað á um að veitingamaðurinn Jacob Jensen frá Sæby mætti ekki nefna stað sinn „Jensens Fiskerestaurant“ því nafnið þótti svipa of mikið til nafns veitingastaðakeðjunnar.

Jacob Jensen íhugaði að færa út kvíarnar og opna fleiri staði undir þessu nafni og til þess að standa vörð um vörumerki sitt ákvað Jensen‘s Bøfhus að sækja Jacob til saka. Nafngiftin reyndist ólögleg og var veitingamanninum gert að greiða keðjunni 200.000 danskar krónur, rúmar fjórar milljónir íslenskra króna, í skaðabætur.

Margir Danir reiddust ákvörðun Hæstaréttar og flykktust á samskiptamiðlana til að mótmæla niðurstöðunni.

„Þetta er sígilt dæmi um Golíat að traðka á Davíð. Danir þola ekki þegar stórfyrirtæki herja á venjulegt, viðkunnanlegt fólk,“ hefur Berlinske eftir vörumerkjafræðingi þar í landi.

Handhafi vörumerkisins, Palle Jensen, var spurður í viðtali við TV2 á laugardag af hverju hann hafi ákveðið að fara dómstólaleiðina. „Þetta byrjaði allt þegar Jacob Jensen hugðist opna veitingastaði í Kertaminde og Faaborg. Þá varð ég fyrst meðvitaður um að til væri eitthvað sem kallaðist Jensens Fiskerestaurant. Fólk kom til mín og spurði hvort við værum að opna sjávarréttastað. Það var svo sannarlega ekki upp á teningnum,“ sagði Palle Jensen við TV2 á laugardag.

Sem fyrr segir hafa rúmlega 100 þúsund manns ákveðið að sniðganga Jensen's Bøfhus. Væri Facebook-síðan sveitarfélag væri það fimmti fjölmennasti bær Danmerkur. Til samanburðar má nefna að 68.200 manns líkar Jensen‘s Bøfhus á Facebook. 

Hér að neðan má sjá umrædda frétt TV2 af Facebook-síðunni „Boykot Jensens Bøfhus“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×