Innlent

Hundrað á dag á Vestari-Sauðahnjúki

Freyr Bjarnason skrifar
Hægt er að sjá eldgosið í Holuhrauni frá Vestari-Sauðahnjúki.
Hægt er að sjá eldgosið í Holuhrauni frá Vestari-Sauðahnjúki. Mynd/Páll Guðmundur Pálsson
Frá því á fimmtudagskvöld hafa um eitt hundrað manns á dag fylgst með eldgosinu í Holuhrauni frá Vestari-Sauðahnjúki sem er vestur af Snæfelli.

Um þrjátíu bílar hafa komið þangað á hverjum degi, flestir seinnipartinn, og fólk fylgist með gosinu sem er í um fimmtíu kílómetra fjarlægð í loftlínu.

„Þetta er umferð sem við höfum eiginlega aldrei séð á þessu svæði og allra síst í september,“ segir Agnes Brá Birgisdóttir, þjóðgarðsvörður yfir austursvæði Vatnajökulsþjóðgarðs.

Aðallega eru þetta Íslendingar sem koma á jeppunum sínum og leggja í bílastæði sem þarna er. Þaðan er hægt að ganga í um tuttugu mínútur stikaða leið upp á topp fjallsins. Á bílastæðinu var áður pláss fyrir fimm til átta bíla en búið er að fjórfalda stærð þess til að koma fleiri bílum fyrir.

Páll Guðmundur Pálsson, sem rekur Laugafell Highland Hostel, er einn þeirra sem hafa skoðað gosið frá þessu sjónarhorni. „Ég fór þarna á laugardagskvöldið og kíkti á gosið með félögum mínum. Þá taldi ég 22 bíla,“ segir hann.

„Það er ekki nema einn og hálfur tími frá Egilsstöðum að rúlla þetta og þetta er besta útsýnið sem er í boði, utan lokunarsvæðis.“ Hann segir fallegt að horfa á eldgosið í ljósaskiptunum en að degi til sést það ekkert sérlega vel.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×