Erlent

Hugðust drepa norska fjölskyldu af handahófi

Atli Ísleifsson skrifar
Viðbúnaðarstig var hækkað á norskum flugvöllum vegna hryðjuverkaógnarinnar.
Viðbúnaðarstig var hækkað á norskum flugvöllum vegna hryðjuverkaógnarinnar. Vísir/AFP
Norsk öryggisyfirvöld telja að öfgamennirnir sem hugðu á hryðjuverk í Noregi í sumar hafi ætlað sér að ráðast inn á norskt heimili af handahófi og taka viðkomandi fjölskyldu af lífi.

Að morgni 24. júlí síðastliðinn tilkynnti norska ríkisstjórnin og lögregluyfirvöld að hryðjuverkaógn steðjaði að landinu og var viðbúnaðarstig hækkað um tíma alls staðar í landinu.

Í frétt norska ríkisútvarpsins segir að yfirvöld hafi á grunni fyrirliggjandi upplýsinga, óttast að öfgamenn hafi ætlað að ráðast inn á heimili handahófskenndrar fjölskyldu. Þar hafi þeir ætlað sér að taka fjölskylduna af lífi með hnífum, taka upp aftökuna á myndband og birta á netinu.

Með þessu hafi ætlunin verið að skapa eins mikinn ótta og skelfingu og mögulegt væri meðal norsku þjóðarinnar og fleiri.

Áður hafði Verdens Gang fengið upplýsingar um að hryðjuverkamennirnir hafi fyrirhugað árás á mannfjölda og notast við hnífa.

Talsmenn norska dómsmálaráðuneytisins hafa ekki viljað tjá sig um málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×