Innlent

Huang Nubo aldrei kynnst slíkum samskiptaaðferðum

Huang Nubo segir vinnubrögð íslenskra stjórnvalda í máli sínu ófagleg. Hann hafi þó enn áhuga á að fjárfesta á Íslandi en ekki komi til greina að kaupa landið í gegnum fyrirtæki innan EES, það sé óvirðing við Íslendinga. Jónas Margeir Ingólfsson ræddi við Nubo í dag.

Innanríkisráðuneytið hafnaði beiðni Huangs Nubos um að kaupa Grímsstaði á Fjöllum í síðustu viku. Nubo segir íslensk stjórnvöld þurfa að koma fram við sig af sanngirni til þess að hann geti fjárfest á Íslandi.

Nú hafa íslensk stjórnvöld neitað undanþágubeiðni þinni, hefur þú enn áhuga á að fjárfesta á Íslandi?

Fyrir það fyrsta, já áhugi minn er sannarlega ennþá til staðar. Vegna þess að áhugi minn á Íslandi vaknaði ekki vegna peninga heldur ljóðlistarinnar og upphafið var vegna skólafélaga minna. Ef við gefum okkur að þessi fjárfesting verði ekki að veruleika mun vinátta mín við Ísland og skólafélaga mína haldast óbreytt. Ég mun halda áfram með verkefni tengd ljóðlist, á því mun engin breyting verða. Í annan stað hef ég ennþá áhuga á að fjárfesta á Íslandi vegna þess að mér líkar mjög vel við landið. Þrátt fyrir að fjárfestingaáform mín kunni að standa frammi fyrir einhverjum vandamálum eða áfalli er eitthvað sem fjárfestir stendur oft frammi fyrir jafnt í Kína sem öðrum löndum. Það er allt saman eðlilegt og mun ekki draga úr staðfestu minni í að fjárfesta á Íslandi. Ég mun finna aðferð og tækifærin eru mörg til að halda áfram með og klára fjárfestingaráform mín á Íslandi. Ég bið bara um að fá eitt tækifæri til að sýna og sanna að við getum gert þetta mjög vel til hagsbóta fyrir Ísland og fyrirtæki mitt.

Hvað þyrfti þá að gera til að fá þig til að fjárfesta á Íslandi?

Í fyrsta lagi þarf ég að njóta sanngirni. Þegar hafa verið veittar margar undanþágur til handa útlendingum en þegar ég, kínverskur einstaklingur, bið um slíkt er ekkert við mig talað, bara einföld neitun. Þetta er ekki réttlátt, ég bið einungis um sanngjarna meðferð. Auk þess ef upp hefðu komið einhverjar spurningar í málsmeðferðinni hefði verið hægt að leita til mín og ræða við mig. T. d.: Þarftu svona mikið land?, gætirðu hugsað þér að fjárfesta annarstaðar? eða værirðu til í að leigja landið sem þú þarft? Um öll þessi mál hefði verið hægt að ræða við mig. En ekki svona snubbótt að segja skyndilega að ég megi ekki koma. Þess utan var þessi ákvörðun tilkynnt opinberlega áður en ég mér var tilkynnt um þetta. Svona vinnubrögð get ég ekki skilið og sætti mig illa við.

Finnst þér hafa verið komið fram við á jafnréttisgrundvelli í viðræðum þínum við íslenska ríkið?

Ekkert samráð hefur verið haft við mig. Eftir að ég skrifaði undir samninginn við bændurna, var undanþágubeiðnin send í ráðuneytið. Eftir það var ekkert leitað til mín, einungis endalaust beðið um meiri og meiri gögn þar sem okkur var gert að gera grein fyrir því af hverju við ætluðum að fjárfesta. En hafi þeir haft einhverjar spurningar vorum við ekki spurðir álits og engar tilraunir gerðar til að eiga samræður við okkur. Sem fjárfestir hef ég hvergi lent í slíkri málsmeðferð. Svo er annað sem ég er sérstaklega óánægður með. Þar sem þetta eru einungis viðskipti sem um er að ræða hefði verið hægt að tilkynna mér niðurstöðuna, burt frá því hver hún hefði verið, án þess að tilkynna öllum heiminum þessa niðurstöðu í leiðinni. Þetta hefur gert það að verkum að fyrirtæki mitt þarf að eiga við fjölmiðla dag hvern. Mér finnst þetta ekki hafa verið gert á réttan hátt.

Fannst þér þetta ófaglegt?

Hárrétt, það er mín skoðun. Ég hef staðið í fjárfestingarviðræðum í Kína, Bandaríkjunum, Kirgistan og Japan en aldrei kynnst því að fjárfestirinn sé ekki virtur viðlits og engin virðing sýnd. Ég hef aldrei kynnst slíkum samskiptaaðferðum. Því að hvað sem öðru líður var mér boðið að fjárfesta og fer því einungis fram á smá virðingu, að ég sem fjárfestir sé metinn á jafnréttisgrundvelli og rætt við mig um hverjar þær spurningar sem upp kunna að koma og síðan er hægt að neita mér. Ef þannig hefði verið tekið á málunum og embættismennirnir hefðu sýnt af sér góða stjórnsýslu sem fulltrúar síns lands hefði fjárfestirinn haft skilning á niðurstöðunni þrátt fyrir að fá neitun.

Kemur til greina að leigja landið eða kaupa það í gegnum fyrirtæki innan EES?

Það er ekkert mál að leigja þetta land þar sem mínar hugmyndir snúast einvörðungu um fjárfestingar. En varðandi verðið, það er ekki sama verð fyrir að leigja landið eða kaupa það. Ef bændurnir sem eiga landið samþykkja það er það í lagi mín vegna. Hvað varðar aðra spurningu þína þá mun ég ekki setja á fót fyrirtæki í öðru Norður-Evrópulandi og koma í gegnum það til Íslands. Það er hvorki virðingarvert gagnvart Íslandi eða sjálfum mér. Þriðja spurningin, Ég hef ekki hugmynd um hvaða hugmyndir stjórnvöld á Íslandi hafa í þessu máli því mér hefur þegar verið hafnað en ég set mig ekki á móti því að setjast niður og ræða málin ef þörf verður á því í framtíðinni. En til þess þarf fulltrúi íslenskar stjórnvalda að bjóða upp á þær viðræður og eftir það getum við rætt málin.

Og hvað tekur þá nú við?

Það skal ég ekki segja um en mér finnst núna að hvort sem ég kem til Íslands eða ekki munu áætlanir mínar um fjárfestingar á Norðurlöndunum ekki breytast. Mér hefur verið verið boðið að koma til Svíþjóðar, Finnlands og Danmerkur og er ekki útiloka að ég muni byrja að fjárfesta í þessum löndum á næsta ári. Eftir það er hugsanlegt að koma aftur til Íslands. En hvað sem öllu líður vonast ég til að þetta mál muni ekki valda leiðindum á milli fólksins á Íslandi og vina minna þar og mín. Viðskipti eru viðskipti og gjarnan koma upp vandamál þegar peningar spila inn í. Ég vonast til við getum snúið okkur aftur að ljóðunum. Það er kannski bara best þannig, ég vona bara að á hverju sem muni ganga muni vinátta mín við íslensku þjóðina ekki rofna.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×