Innlent

Hrunið gerbreytti pólitísku landslagi

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Frambjóðendur stærstu flokkanna í Reykjavík ræddu stefnumál þeirra í útsendingu á Stöð 2 í fyrrakvöld.
Frambjóðendur stærstu flokkanna í Reykjavík ræddu stefnumál þeirra í útsendingu á Stöð 2 í fyrrakvöld. vísir/ernir
„Að öllu óbreyttu erum við að sjá ríkisstjórn með sömu flokkum og eru að stjórna borginni, ef þetta verður niðurstaða kosninga. Ég hvet fólk til að velta því fyrir sér hvort það vilji sjá það stjórnarform,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavíkurkjördæmi norður, um skoðanakönnun Fréttablaðsins, Stöðvar 2 og Vísis sem gerð var 24. og 25. október.

Fjórðungur þeirra sem afstöðu taka segist myndu kjósa Sjálfstæðisflokkinn og 20 prósent nefna Pírata. VG er þriðji stærsti flokkurinn með ríflega 16 prósenta fylgi. Framsóknarflokkurinn er með rúm 11 prósent og Viðreisn með tæp 11 prósent. Samfylkingin er með 6 prósenta fylgi og Björt framtíð er með 5,1 prósent.

Yrðu þetta niðurstöður kosninganna myndi Sjálfstæðisflokkurinn fá 17 þingmenn kjörna, Píratar 14, VG 11 og Framsóknarflokkurinn og Viðreisn sjö menn hvor flokkur. Samfylkingin fengi svo fjóra menn og Björt framtíð þrjá. Það væri því ekki möguleiki á myndun tveggja flokka ríkisstjórnar.

Þótt Sjálfstæðisflokkurinn hafi afgerandi forskot á aðra flokka í könnuninni yrði þetta samt ein versta niðurstaða Sjálfstæðisflokksins í sögulegu samhengi. Kosningarnar 2009 skiluðu flokknum þó enn verri niðurstöðu þegar hann fékk 23,7 prósent atkvæða og 16 þingmenn kjörna.



Sjálfstæðisflokkur mælist stærstur.
Grétar Þór Eyþórsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskólann á Akureyri, segir þó að fái Sjálfstæðisflokkurinn um fjórðung greiddra atkvæða í kosningunum geti hann vel við unað. „Ef hann endar einhvers staðar í kringum 25 prósent þrátt fyrir klofningsframboð og að hafa setið í ríkisstjórn, þá er spurning hvort það sé ekki viðunandi niðurstaða, þrátt fyrir allt.“ Grétar bendir á að bankahrunið hafi gerbreytt stöðu Sjálfstæðisflokksins í sögulegu samhengi og rifjar upp að árið 2003 hafi flokkurinn fengið 33,7 prósent og hafi það þá þótt slæm niðurstaða.

Uppgangur Pírata í skoðanakönnunum er annað dæmi um það hvernig pólitískt landslag hefur gjörbreyst á síðustu árum. „Ég held að við verðum bara að túlka fylgi Pírata sem ákall á einhverjar meiri breytingar eftir hrunið en hafa farið fram,“ segir Grétar. Þrátt fyrir betri efnahag og bætta stöðu heimilanna sé kallað eftir enn frekari breytingum.

Í kosningunum 2009 fékk Samfylkingin 29,8 prósent atkvæða og varð stærsti þingflokkurinn með 20 menn á þingi. Eftir fjögur erfið ár í ríkisstjórn, strax í aðdraganda bankahrunsins, fékk Samfylkingin svo 12,9 prósenta fylgi og níu þingmenn. Nú er flokkurinn með 6 prósenta fylgi og yrði næstminnsti þingflokkurinn. Samtöl hafa staðið yfir milli stjórnarandstöðuflokkanna á Alþingi en Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði í gær að með þetta fylgi myndi Samfylkingin ekki geta tekið þátt í ríkisstjórn. „Ekki við þessar aðstæður en við þurfum að styrkja stöðu okkar til að geta farið í slíkt samstarf.“

Niðurstaðan er því sú að það verður ekki einungis spennandi að sjá hvort niðurstöður kosninga verða í takt við það sem skoðanakannanir benda til heldur virðist allt opið varðandi stjórnarmyndunarviðræður í framhaldinu.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×