Innlent

Hreyfingin krefst afsagnar forsætisráðherra

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Hreyfingin vill að Jóhanna segi af sér embætti og forsetinn skipi nýja stjórn. Mynd/ Vilhelm.
Hreyfingin vill að Jóhanna segi af sér embætti og forsetinn skipi nýja stjórn. Mynd/ Vilhelm.
Þingmenn Hreyfingarinnar vilja að Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra segi af sér embætti og forseti Íslands kanni hvort vilji sé fyrir því á meðal þingmanna að hann skipi nýja stjórn. Reynist ekki þingmeirihluti fyrir því að verja slíka neyðarstjórn vantrausti muni forseti boða til alþingiskosninga.

Verði hins vegar meirihluti í þinginu fyrir skipan nýrrar stjórnar muni forseti Íslands gera tillögu að neyðarstjórn. Þingmenn Hreyfingarinnar telja að tillaga forseta Íslands geti annað hvort falist í uppástungu að forsætisráðherra sem velji sér samráðherra eða tillögu að öllum ráðherrum slíkrar ríkisstjórnar. Þeir vilja svo að þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram um tillögu forseta Íslands að neyðarstjórn. Kosið verði um neyðarstjórnina í heild sinni. Verði neyðarstjórninni hafnað þá verði boðað til alþingiskosninga.

Þingmenn Hreyfingarinnar hafa sent forseta Íslands þessa tillögu. Þeir segja í yfirlýsingu til fjölmiðla að tillagan sé lögð fram vegna þess að þeim þyki einsýnt að hvorki innan ríkisstjórnarinnar né stjórnarflokkanna ríki einhugur né raunverulegur vilji til almennra aðgerða í þágu heimilanna. Tíminn sé á þrotum og samfélagið geti ekki verið í biðstöðu á meðan stjórnvöld og fulltrúar peningaaflanna koma sér saman um að hve litlu leyti þau komist upp með að bæta almenningi þær búsifjar sem þessir sömu aðilar hafi átt stóran þátt í að skapa eða hefðu getað fyrirbyggt.







Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×