Innlent

Hretið hittir einmitt á páskadagana

Brjánn Jónasson skrifar
Leiðin um Þorskafjarðarheiði var ófær, og varla hægt að sjá að þar sé vegur þar sem stikur voru á kafi í snjó í gær.
Leiðin um Þorskafjarðarheiði var ófær, og varla hægt að sjá að þar sé vegur þar sem stikur voru á kafi í snjó í gær. Fréttablaðið/Róbert
„Það er skrítið hvað þetta hittir einmitt á þessa páskadaga, það er búið að vera ágætis veður, og það verður aftur ágætt eftir páskana,“ segir Árni Sigurðsson, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, um páskahretið sem landsmenn hafa orðið varir við undanfarna daga.

Hann segir að þó það viðri lítið til útivistar fyrir sunnan sé ágætt veður fyrir útivistarfólk á norðurlandi. „Svo verður miklu betra veður eftir helgi, minni vindur og meiri hlýindi í kortunum.

Árni segir spár gera ráð fyrir hvassviðri fram að hádegi í dag, en þá muni hægjast um. Á sunnudag er áfram spáð suð-vestanátt, en hressilega dregur úr vindi. Áfram verður éljagangur sunnan- og vestanlands. Áfram verður bjart og talsvert hægari vindur á norðausturlandi.

Hitastig verður á bilinu 0 til 5 stig fram á mánudag. Þá snýst vindur í suð-austanátt með næðingi með suð-vesturströndinni með úrkomu, en hlýnandi veðri. Árni segir hitann geta farið í 10 stig á norðurlandi á þriðjudag.

Færð er ágæt á láglendi víðast á landinu, en samkvæmt upplýsingum frá Vegagerð Íslands er hálka og snjóþekja víða á fjallvegum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×