Viðskipti innlent

Hreinn Loftsson kaupir Birtíng

Hreinn Loftsson stjórnarmaður í Baugi og nýr eigandi Útgáfufélagsins Birtíngs.
Hreinn Loftsson stjórnarmaður í Baugi og nýr eigandi Útgáfufélagsins Birtíngs.

Austursel ehf sem er alfarið í eigu Hreins Loftssonar stjórnarmanns í Baugi, hefur keypt útgáfufélagið Birtíng ehf. Aðaleigandi Birtíngs fyrir þessi viðskipti voru Stoðir Invest, sem er í meirihluta eigu Gaums félags Jóns Ásgeirs Jóhannessonar og fjölskyldu.

Útgáfufélagið Birtíngur gefur út Dagblaðið DV, fréttavefinn dv.is auk 11 tímarita. Meðal tímarita félagsins má nefna Séð og heyrt, Hús & híbýli og Mannlíf.

Að sögn Hreins hefur Austursel ehf. átt á bilinu 5-10% hlut í Birtíngi en hann hefur verið stjórnarformaður félagsins.

Aðspurður hversu mikið hann greiðir fyrir viðskiptin vill Hreinn ekki gefa það upp. „En þetta eru raunveruleg viðskipti."

Hreinn segist gera sér grein fyrir því að nú séu óvissutímar í þessum bransa en hann hafi alla tíð haft mikinn áhuga á fjölmiðlum og meðal annars starfað við þá.

„Og ég hef þá trú að þegar dagur rís á nýjan leik verði þetta sterkt félag og það eru uppi ýmis merki þess. DV hefur til dæmis verið að sækja í sig veðrið og við sjáum aukningu í lausasölu þó það hafi verið erfitt á auglýsingamarkaði," segir Hreinn.

„Það verða að vera til frjálsir fjölmiðlar hér á landi og ég hef fullan hug að á sjá til þess að svo verði."

Vandséð er að sjá hvernig eignatengsl Birtíngs ehf og Baugs verða rofin með þessum viðskiptum því Hreinn er ekki bara stjórnarmaður í Baugi, heldur á annað félag í hans eigu, Bagu, einnig 10% hlut í Baugi.

 

Samkvæmt fréttavefnum dv.is verður nánar fjallað um kaupin í DV á morgun.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×