Innlent

Hraðahindranir kosta Strætó 350 milljónir

Reynir Jónsson vill sjá færri hraðahindranir á höfuðborgarsvæðinu, en hver og ein tefur ferð strætisvagns um tuttugu sekúndur. Spurður um aðra kosti, svo sem rafbíla, segir hann enn sem komið er best að miða við hybrid-tækni.
Reynir Jónsson vill sjá færri hraðahindranir á höfuðborgarsvæðinu, en hver og ein tefur ferð strætisvagns um tuttugu sekúndur. Spurður um aðra kosti, svo sem rafbíla, segir hann enn sem komið er best að miða við hybrid-tækni. fréttablaðið/stefán
Strætó bs. gæti haldið úti þjónustu fyrir hádegi á sunnudögum „og rúmlega það" ef hraðahindranir yrðu fjarlægðar af helstu akstursleiðum vagnanna. Það gæti sparað allt að tíu vagna í akstri. Framkvæmdastjóri Strætós segir þetta og bendir á að hvergi í Skandinavíu séu hraðahindranir á stofnleiðum vagnanna.

Ekki hefur verið hægt að taka strætó á höfuðborgarsvæðinu, fyrir hádegi á sunnudögum, síðan í janúar 2009.

Framkvæmdastjórinn, Reynir Jónsson, rifjar upp að í ljósi falls krónu og verðbólgu hafi fyrirtækið þá þurft allt að 350 milljónir króna til að halda þjónustu óbreyttri. Sveitarfélögin, sem standa að rekstri Strætós, veittu fyrirtækinu um hundrað milljónir. Strætó var svo sagt að hagræða upp í afganginn.

„Okkur hugnast ekki að hafa enga þjónustu á þessum tíma. En við þurftum að standa vörð um þær leiðir sem flestir nýta," segir hann.

Spurður nánar um fyrrgreint óhagræði af hraðahindrunum vísar hann í útreikninga um að hver hraðahindrun tefji strætis­vagn um sirka tuttugu sekúndur, og kosti eldsneyti.

„Þessir sunnudagsmorgnar myndu kosta á bilinu 120 til 140 milljónir á ári. Grófur heildarrekstrarkostnaður vagns er um 35 milljónir," segir hann. Miðað við tafirnar yrði tíu vagna sparnaður af því að hraðahindranir yrðu fjarlægðar, eða um 350 milljónir. „Það er því með ráðum gert að hafa engar hraðahindranir á strætóleiðum í Skandinavíu," segir hann.

Mikill eldsneytiskostnaður fylgi því að koma bílum af stað eftir umferðarljós eða hraðahindranir. Því séu til að mynda bílar með blendingstækni, blöndu dísils og rafmagns, góður kostur fyrir Strætó. Þessir bílar nýta raforku, sem þeir búa til þegar bremsað er, í að koma sér af stað aftur. Þegar bíllinn er kominn á ferð tekur dísilakstur við.

„Þessir bílar eru aðeins dýrari en venjulegir vagnar en mesta eldsneytiseyðslan og útblásturinn er þegar bíllinn fer af stað. Verðmunurinn næst aftur með eldsneytissparnaðinum." Því meira sem sé af hraðahindrunum, því betur borgi blendingsbílar sig.- kóþ



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×