Innlent

Hörð viðbrögð vegna kanínudrápsins í Öskjuhlíð

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Hér má sjá það sem Hildur, Berglind og Egill sögðu um kanínudrápið á Twitter.
Hér má sjá það sem Hildur, Berglind og Egill sögðu um kanínudrápið á Twitter.
Frétt Vísis um kanínuna sem var rist á hol í Öskjuhlíðinni og fannst í gær hefur vakið mikla athygli. Á samskiptamiðlinum Twitter má sjá marga lýsa yfir reiði sinni vegna drápsins og meðferðarinnar á kanínuhræinu.

Meðal þeirra sem hafa tjáð sig um málið eru Egill Einarsson, betur þekktur sem Gillz: „Ég vil 150 ára fangelsi á geðsjúklinginn sem drap litlu krúttlegu kanínuna í Öskjuhlíðinni!“

Berglind Pétursdóttir sendi þeim sem drap kanínuna skilaboð: „ÞÚ ÞARNA SEM RISTIR KANÍNUR Á HOL Í ÖSKJUHLÍÐINNI: ÉG HATA ÞIG“

Hildur Lilliendahl hafði greinilega ekki frétt af málinu og spurði Berglindi, á Twitter, hvað hún ætti við. Þá var Hildi bent á frétt Vísis og viðbrögðin voru: „ANDSKOTINN.“

Í athugasemdakerfi Vísis lýsa margir yfir reiði sinni og furða sig á því að nokkur geti gert svona við dýr.

Gæti fengið tveggja ára fangelsi

„Þetta er skýrt brot á fjölda laga og gæti sá sem gerði þetta átt yfir höfði sér allt að tveggja ára fangelsi,“ sagði Árni Stefán Árnason, lögfræðingur sem hefur sérhæft sig í rétti dýra, í samtali við Vísi fyrr í dag.

Árni sagði að af myndinni af dæma væri þetta skýr ásetningur. „Ég veit ekki hvað rekur menn út í að gera þetta. Ég veit ekki hvaða hvatir liggja þarna að baki. Svo virðist sem einhverjir njóti þess að kvelja dýr. Þetta hefur alla vega ekki verið gert til þess að afla sér matar, því skrokkurinn er skilinn eftir. Þetta eru því einhverjar aðrar hvatir,“ sagði hann í morgun.

Ekki er langt síðan að Vísir sagði frá öðru dæmi um hrottalega meðferð á dýrum. Í lok síðasta mánaðar var lögreglan kölluð út í sumarhúsabyggð, rétt norðan við Borgarnes, þar sem hundur hafði verið skilinn eftir í blaðagámi.  Hundurinn var lifandi þegar hann fannst, en var svo illa haldinn að ákveðið var að aflífa hann.

„Þetta er afskaplega alvarlegur hlutur og því miður eiga umráðamenn það til að bregðast svona við í stað þess að leita dýralæknis. Þetta lýsir ákveðnu virðingaleysi fyrir lífi dýra og skorti á samvisku að virða þann rétt dýranna til að fá að njóta aðhlyniningar. Kannski hefði verið hægt að bjarga þessum hundi en engin viðleitni var til þess þó það sé skylt samkvæmt dýraverndunarlögum,“ sagði Árni Stefán í samtali við Vísi um það mál.

Hér að neðan má sjá umræður á Twitter um kanínudrápið.


Tengdar fréttir

Hundur fannst í ruslagámi

Hundurinn var í strigapoka í ruslagámi við sumarbústaðabyggð norðan Borgarness.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×