Viðskipti innlent

Hópur fjárfesta undir forystu lífeyrissjóða að eignast TM

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Hópur fjárfesta sem samanstendur meðal annars af Lífeyrissjóði verzlunarmanna og Almenna lífeyrisjsóðnum er langt kominn með að ganga frá kaupum á Tryggingamiðstöðinni af Stoðum, áður FL Group. Á annan tug milljarða króna gætu fengist fyrir félagið, sem er eitt stærsta tryggingafyrirtæki landsins.

Stoðir, áður FL Group, halda á 99,9 prósentum hlutafjár í Tryggingamiðstöðinni.

Fyrirtækið hefur verið í söluferli sem staðið hefur yfir frá 29. mars og var óskuldbindandi tilboðum var skilað inn 4. maí.

Í fyrstu voru 5 fjárfestahópar sem þóttu frambærilegastir að mati Landsbankans sem er ráðgjafi Stoða við söluna.

Þrír aðilar skiluðu inn bindandi tilboðum í síðasta mánuði og að lokum voru teknar upp viðræður við einn hóp fjárfesta sem fyrirtækjaráðgjöf Íslandsbanka hefur farið fyrir.

Á bak við þennan hóp standa meðal annars Lífeyrissjóður verzlunarmanna og Almenni lífeyrissjóðurinn og mynda þeir eins konar hryggjarstykki í hópnum, samkvæmt heimildum fréttastofu. Í hópnum eru einnig aðrir minni lífeyrissjóðir, aðilar í eignastýringu hjá VÍB eignastýringu Íslandsbanka og sjóðir á vegum Íslandssjóða.

TM er verðmætasta eign Stoða, en stærstu hluthafar Stoða eru skilanefnd Glitnis, Landsbankinn og Arion banki.

Ljóst er að á annan tug milljarða króna gætu fengist við söluna á TM, en bókfært virði eiginfjár fyrirtækisins var 12,2 milljarðar króna um síðustu áramót. Fyrirtækið skilaði 3,4 milljarða króna hagnaði í fyrra.

Júlíus Þorfinnsson, framkvæmdastjóri Stoða, sagði í samtali við fréttastofu að viðræður vegna sölunnar á TM væru langt komnar en vildi ekki tjá sig um málið að öðru leyti. thorbjorn@stod2.is





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×