Innlent

Hópslagsmál í Skeifunni: Þeir handteknu af erlendu bergi brotnir

Birgir Olgeirsson skrifar
Mennirnir fjórir sem handteknir voru í tengslum við hópslagsmál í Skeifunni síðastliðinn laugardag eru af erlendu bergi brotnir. Þetta segir Friðrik Smári Björgvinsson, yfirlögregluþjónn lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við Vísi um rannsókn málsins.

Atvikið átti sér stað við Rúmfatalagerinn í Skeifunni um kvöldmatarleytið á laugardag. Talið er að á bilinu tuttugu til þrjátíu manns hafi tekið þátt í slagsmálunum. Sjónarvottar sögðu í samtali við Ríkisútvarpið að töluvert hefði séð á nokkrum þeirra sem tóku þátt í slagsmálunum og hefðu sumir verið blóðugir. Friðrik Smári segir að eftir því sem næst verður komist hafi enginn slasast alvarlega í þessum átökum.

Á fertugs- og fimmtugsaldri

Mennirnir fjórir sem voru handteknir voru vopnaðir kylfum og hamri en Friðrik Smári segir rannsókn málsins miða að því að upplýsa upptök þessara hópslagsmála. Hann segir allt of snemmt að segja hvort málið tengdist einhverskonar uppgjöri í undirheimum eða þá skipulagðri glæpastarfsemi. Hann gat ekki gefið upp hvort mennirnir fjórir sem voru handteknir hafi áður komið við sögu lögreglu. Um var að ræða fullorðna einstaklinga, en á meðal þeirra sem lögreglan hafði afskipti af voru menn á fertugs- og fimmtugsaldri.

Sérstakt staðarval

Slagsmálin áttu sér stað á afar fjölförnum stað í Skeifunni, við Rúmfatalagerinn og Hagkaupsverslun. Friðrik segir þetta afar sérstakt staðarval. „Ég veit ekki hvort þetta hefur verið af ásettu ráði,“ segir Friðrik.

Teknar hafa verið skýrslur af þeim sem handteknir voru og vitnum en Friðrik segir rannsókn málsins verða að leiða í ljós hvort fleiri verði kallaðir til skýrslutöku og þá hvort lögreglan handtaki fleiri í tengslum við rannsóknina. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×