Körfubolti

Hollins hefur trú á að Garnett snúi aftur

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Garnett í baráttu við Chris Bosh, leikmann Miami Heat.
Garnett í baráttu við Chris Bosh, leikmann Miami Heat. Vísir/AFP
Óvíst er hvort framherjinn Kevin Garnett muni spila í NBA-deildinni á komandi leiktíð. Garnett, sem er 38 ára, náði sér ekki á strik með Brooklyn Nets í fyrra og hefur sjálfur ekkert gefið út um framtíðaráætlanir sínar.

Þrátt fyrir það hefur Lionel Hollins, nýr þjálfari Brooklyn, trú á því að Garnett taki slaginn á ný. Og það sem meira er, þá gerir hann ráð fyrir Garnett í byrjunarliðinu í vetur.

„Það er enginn í hópnum sem ég myndi setja inn í liðið í hans stað. Hann hefur unnið fyrir því að vera byrjunarliðsmaður,“ sagði Hollins sem hefur trú á Garnett þrátt fyrir erfiðleika síðustu leiktíðar.

„Ég trúi því að Garnett muni standa sig og eiga sitt besta tímabil sem hefur leikmaður Nets, þótt hann hafi aðeins komið hingað í fyrra. Ég hef trú á honum og að hann muni leggja sitt af mörkum fyrir liðið.

„Hann hefur litið vel út. Hann er í frábæru formi og hefur verið að skjóta boltanum framúrskarandi vel. Ef þetta verður hans síðasta tímabil er ég viss um að myndi vilja klára ferilinn með stæl.“

Garnett kom til Brooklyn frá Boston Celtics ásamt Paul Pierce og Jason Terry fyrir síðasta tímabil. Brooklyn lenti í 6. sæti Austurdeildarinnar og vann Toronto Raptors í fyrstu umferð úrslitakeppninnar. Garnett og félagar töpuðu svo fyrir Miami Heat í undanúrslitum Austurdeildarinnar.

Garnett var valinn með fimmta valrétti af Minnesota Timberwolves í nýliðavalinu 1995. Hann var valinn verðmætasti leikmaður NBA-deildarinnar 2004.

Garnett var skipt frá Minnesota til Boston sumarið 2007. Hann varð meistari með Boston á sínu fyrsta tímabili hjá liðinu.

Garnett hefur verið í hópi bestu leikmanna NBA-deildarinnar síðustu ár.Vísir/Getty
NBA

Tengdar fréttir

Pierce og Garnett til Nets í risaskiptum

Mögnuð tíðindi berast frá Bandaríkjunum en NBA - liðið Brooklyn Nets hefur náð samkomulagi við Boston Celtics um að fá til liðsins Kevin Garnett og Paul Pierce í skiptum fyrir þó nokkra leikmenn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×