Innlent

Hola myndaðist í jörðinni á Selfossi

Erla Hlynsdóttir skrifar
Undir malbikinu er um tveggja fermetra holrými
Undir malbikinu er um tveggja fermetra holrými Myndir Sæunn Ósk Kristinsdóttir
Hola myndaðist í götunni við Víðivelli á Selfossi í gær. Ekki er útilokað að um sé að ræða síðbúin eftirköst jarðskjálftans sem var á svæðinu árið 2008.

„Krakkarnir okkar fundu holuna í gær. Þá var hún miklu minni en stækkaði eftir því leið á daginn," segir Sæunn Ósk Kristinsdóttir, íbúi við Víðivelli 10.

Götunni var lokað fyrir umferð í gær og holan girt af til að koma í veg fyrir slys. Fulltrúar frá Árborg komu og skoðuðu holuna í morgun.

Gatið í malbikinu er um hálfur meter í þvermál en undir því er stærra holrúm, líklega um tveir fermetrar.

Jón Tryggvi Guðmundsson, tæki- og veitustjóri Árborgar, segir að holan verði skoðuð frekar í dag. Þá verður fráveitulögnin við götuna mynduð til að kanna hvort laus jarðefni hafi farið inn í skolplögn. Þó hefur ekki verið orðið vart við neina tregðu í lögnunum.

Jón Tryggvi segir of snemmt að fullyrða um ástæður þess að holan myndast. „Það geta verið fleiri en ein ástæða fyrir jarðsiginu," segir hann.

Að sögn Sæunnar Óskar er nokkuð langt síðan íbúar við götuna urðu varir við hálfgerða dæld í malbikinu. „Þetta var svona eins og öfug hraðahindrum," segir hún.

Jarðskjálftinn 2008 var mjög öflugur og þurfti í kjölfar hans að rífa nokkur hús sem voru gjörónýt. Þar á meðal var húsið við Víðivelli 12 rifið, sem stóð skammt frá þar sem holan myndaðist.

Tveir suðurlandsskjálftar riðu yfir samtímis í maí 2008. Þeir voru um 6,3 stig á Richter og fundust svo fjarri upptökunum sem á Ísafirði.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×