Innlent

Hjúkrunarfræðingar gagnrýna McKinsey skýrsluna

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Stjórn hjúkrunarráðs Landspítala lýsir yfir áhyggjum af litlu vægi hjúkrunar í skýrslunni. Hún sé langt frá því að greina frá þeim mönunnarvanda sem ríki.
Stjórn hjúkrunarráðs Landspítala lýsir yfir áhyggjum af litlu vægi hjúkrunar í skýrslunni. Hún sé langt frá því að greina frá þeim mönunnarvanda sem ríki. Vísir/Vilhelm
Stjórn hjúkrunarráðs Landspítala lýsir yfir áhyggjum af litlu vægi hjúkrunar í ráðleggingum til úrbóta í heilbrigðiskerfinu í nýútkominni skýrslu sem unnin var af ráðgjafafyrirtækinu McKinsey fyrir velferðarráðuneytið. Kallað er eftir frekari rökstuðningi á ráðleggingum fyrirtækisins þess fjölga eigi sérfræðilæknum til þess að fækka legudögum og að þar með verði hægt að minnka þörf á hjúkrunarfræðingum.

Hjúkrunarráð bendir á í ályktun sinni að ýmsa þætti vanti í skýrsluna. Beri þar helst að nefna úttekt á yfirvinnu hjúkrunarfræðinga, hvaða áhrif yfirvinna og hvíldartímabrot hafi á öryggi sjúklinga og starfsmanna, gæði þjónustu, veikindi starfsfólks og hvíldartímaréttindi. Þá skorti úttekt á hvort unnin yfirvinna nægi til að minnka álag og halda nægum rúmafjölda opnum á Landspítala sem og samanburð á yfirvinnu á Landspítala við samanburðarsjúkrahúsin.

„Mikill skortur er á hjúkrunarfræðingum nú þegar og vanmat á þeim skorti er grafalvarlegt mál. Skýrsla McKinsey er langt frá því að greina frá mönnunarvanda hjúkrunar á Landspítala og víðar. Nýliðun hjúkrunarfræðinga er ekki í takt við aukna þörf fyrir hjúkrunarfræðinga, hvað þá þann atgervisflótta sem raun ber vitni og þann fjölda hjúkrunarfræðinga sem fara á eftirlaun á næstu árum. Brýn þörf er á aðgerðaráætlun til að bæta mönnun í hjúkrun nú og til framtíðar,“ segir í ályktun stjórnar hjúkrunarráðs.

Ályktunin í heild.


Tengdar fréttir

Ástæða til að skoða lóðrétt stjórnskipulag í heilbrigðiskerfinu

Í skýrslu McKinsey & Company um Landspítalann sem kynnt var í síðustu viku er lagt til að stjórnvöld kanni fýsileika þess að koma upp svonefndu lóðréttu stjórnskipulagi í íslensku heilbrigðiskerfi. Um róttæka tillögu er að ræða, en hún felur í sér að Landspítalinn, heilsugæslan, öldrunarþjónustan og heilbrigðisstofnanir á landsbyggðinni lúti einni sameiginlegri stjórn.

Launahækkanir lækna skili sér ekki í betri þjónustu: Ræða úttekt McKinsey

Viðskiptaráð Íslands segir að ný úttekt McKinsey & Company á Landspítalanum sýni að þrátt fyrir að laun lækna hafi hækkað hafi gæði þjónustunnar á spítalanum ekki aukist. Forstjóri Landspítalans er ekki sammála þessari túlkun ráðsins en framkvæmdastjórn spítalans fundaði um úttektina í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×