Enski boltinn

Hjörvar: Íslenskum leikmanni var boðið að loka sig af inn á hóteli til að knýja fram sölu

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Guðmundur Benediktsson, Hjörvar Hafliðason og Bjarni Guðjónsson ræddu leikmannavald í fótboltanum í Messu gærkvöldisins á Stöð 2 Sport HD. Umræðan var í tengslum við vesenið sem er á Dmitri Payet, besta leikmanni West Ham.

Payet neitar að spila fyrir Lundúnarliðið þar sem hann vill komast heim til Frakklands og spila fyrir Marseille en Slaven Bilic, knattspyrnustjóri West Ham, er ekki á því að selja leikmanninn.

„Ef leikmaður neitar að spila fyrir liðið, átt þú þá ekki að neita að borga honum? Hann gengur til liðs við þá, gerir nýjan samning og verður lang launahæstur hjá félaginu. Má ekki neita að borga honum?“ spurði Hjörvar Hafliðason.

„Ef þeir geta sannað að hann er ekki meiddur geta þeir sektað hann um tveggja vikna laun og það er meira en leikur á tveggjna vikna fresti,“ svaraði Bjarni Guðjónsson.

Gummi Ben skaut þá spurningu á sérfræðingana hvort leikmannavald væri ekki orðið alltof mikið og Bjarni var fljótur að grípa boltann.

„Þessu er ofboðslega erfitt að stýra því vald leikmenna er alltaf eitthvað. Félagið getur alveg sagt við leikmanninn að hann fari ekki neitt, en það verður að setja upp ákveðnar reglur. Hvað ætlar West Ham að gera við næsta leikmann? Á að leyfa honum að fara fyrir tvær eða fjórar milljónir?“ sagði Bjarni.

„Liðið þarf að standa á einhverjum grunni og það er mjög klaufalegt þegar svona hlutir gerast. Það er ekki gott að leikmaður fari í verkfall til að komast í burtu en það er væntanlega umboðsmaður á bakvið hann sem er að segja honum að gera þetta.“

Hjörvar Hafliðason sagði þá bransasögu af íslenskum leikmanni sem var boðið að setja upp mikið leikrit þannig hann gæti komist burt frá sínu félagi.

„Það var íslenskur leikmaður sem var mjög eftirsóttur og glugginn var að loka. Þá hafði samband við hann einn af stærri umboðsmönnum heims sem sagði að hann gæti komið honum burt. Umboðsmaðurinn sagðist bara ætla að loka leikmanninn inn á hóteli í nokkra daga og þegar hann kæmi út af því væri hann kominn í nýtt lið. Það gerðist reyndar ekki, en svona ýta þeir þessu í gegn. Þetta hefur ítrekað gerst,“ sagði Hjörvar Hafliðason.

Alla umræðuna má sjá í spilaranum hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×