Viðskipti innlent

Hjól atvinnulífsins stöðvast rétt fyrir fjögur

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Fjölmörg fyrirtæki munu loka fyrr í dag vegna landsleiks Íslands og Austurríkis á EM í dag.
Fjölmörg fyrirtæki munu loka fyrr í dag vegna landsleiks Íslands og Austurríkis á EM í dag. Vísir
Búast má við því að Ísland verði stopp í um tvo tíma nú á eftir þegar leikur Íslands og Austurríkis fer fram á EM. Þar mun það ráðast hvort að Ísland tryggi sér sæti í 16-liða úrslitum keppninnar eður ei. Fjölmörg fyrirtæki ætla að leggja sín lóð á stuðningsvogar landsliðsins með því að loka fyrr svo starfsmenn geti horft á leikinn.

Leikurinn fer fram klukkan fjögur í dag og hafa fyrirtæki á borð við Landsbankann, Arion Banka, Íslandsbanka, VÍS, Sjóvá, Vörð, TM, Eimskip og Samskip tilkynnt um að útibú og skrifstofur sínar loki klukkan 15.30, í tæka tíð fyrir leikinn.

Þá mun verða svokallað sólar- og fótboltafrí vera eftir hádegi í dag í velferðarráðuneytinu. Ormsson og Samsung-setrið munu einnig loka klukkan 15.45.

Einnig hafa fjölmargar minni verslanir og fyrirtæki einnig tilkynnt um styttri opnunartíma og má þar nefna Dorma, A4, Straumrás, Rekstrarvörur, Jónar Transport, Fiskikóngurinn og Bílaumboðið Askja. Er þessi listi langt frá því að vera tæmandi.

Þúsundir Íslendinga eru í París, þar sem leikurinn fer fram, þar sem þeir munu styðja Strákana okkur, vonandi til sigurs. Ljóst er þó að Íslendingar hér heima munu ekki láta sitt liggja eftir í stuðningnum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×