Fótbolti

Hiddink mjög stoltur af Diego Costa

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Diego Costa.
Diego Costa. Vísir/Getty
Guus Hiddink, knattspyrnustjóri Chelsea, talaði vel um Diego Costa á blaðamannafundi fyrir seinni leik Chelsea og franska liðsins Paris Saint Germain í sextán liða úrslitum Meistaradeildarinnar sem fer fram í kvöld.

Fólkið á samfélagsmiðlum Paris Saint Germain liðsins höfðu tekið saman svokallað "svindl" myndband með Diego Costa og öðrum þekktum persónum sem hafa gengið um með grímu yfir andlitinu. Diego Costa hefur spilað að undanförnu með andlitsgrímu eftir að hafa nefbrotnað.

Laurent Blanc, þjálfari  Paris Saint Germain, hefur varað sína leikmenn við Diego Costa og talaði um að þeir verði að passa sig á honum.  Sky Sports fjallar um umræðuna um Diego Costa á blaðamannafundinum.

Diego Costa hefur skorað 10 mörk í 14 leikjum síðan að Guus Hiddink tók við Chelsea-liðinu en hann hefur aðeins skorað eitt mark í fjórtán leikjum fyrir Chelsea í Meistaradeildinni.

Diego Costa hefur aldrei fengið rautt spjald síðan að hann kom til Chelsea en hann hefur fengið tvö þriggja leikja bönn fyrir hegðun sína inn á vellinum.

„Ég er mjög stoltur af honum og hvernig hann spilar. Hann fer ekki fram af brúninni en vill láta til sína taka í baráttunni," sagði Guus Hiddink.  Hann stendur með sínu manni þegar fólk ætlar að gangrýna framgöngu Costa inn á vellinum.

„Ég kem honum til varnar og styð það sem hann hefur verið að gera inn á vellinum síðan að ég tók við Chelsea. Hann hefur verið að skora að undanförnu í deild sem er ekki af lakari gerðinni. Hann hefur skorað reglulega í ensku úrvalsdeildinni síðan í desember," sagði Hiddink.

„Fyrr á tímabilinu var hann ekki að skora en það átti einnig um liðið. Við skulum bíða og sjá hvort að hann geti ekki skorað í Evrópukeppninni líka," sagði Guus Hiddink.

Þetta er þriðja tímabilið í röð þar sem Chelsea og Paris Saint Germain mætast í útsláttarkeppni Meistaradeildarinnar. Chelsea vann á útivallarmörkum í átta liða úrslitunum 2014 en útivallarmörkin komu Paris Saint Germain áfram í sextán liða úrslitunum í fyrra.

Paris Saint Germain vann fyrri leikinn 2-1 á Parc des Princes og það er því ennþá mikil spenna fyrir seinni leikinn sem verður sýndur beint á Stöð 2 Sport klukkan 19.45 í kvöld.


Tengdar fréttir

Diego Costa nefbrotnaði á æfingu

Guus Hiddink, knattspyrnustjóri Chelsea, tilkynnti á blaðamannafundi í gær að Diego Costa hefði nefbrotnað á æfingu liðsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×