Enski boltinn

Herrera gæti spilað á nýársdag

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Getty
Ander Herrera mun mögulega spila með Manchester United gegn Stoke á nýársdag en hann hefur misst af síðustu þremur leikjum liðsins vegna meiðsla.

Þetta eru góðar fréttir fyrir United sem hefur verið að glíma við mikil meiðsli í leikmannahópi sínum í haust. Liðið var án fimm leikmanna er United gerði markalaust jafntefli gegn Tottenham í gær.

„Fjórir leikmenn eru enn meiddir [Angel Di Maria, Daily Blind, Marcos Rojo og Ander Herrera] og Marouane Fellaini er veikur,“ sagði knattspyrnustjórinn Louis van Gaal eftir leikinn. „Ander kemur til baka í þessari viku.“

Hann sagði enn fremur að enginn þeirra leikmanna sem voru teknir af velli í leiknum gegn Tottenham hafi meiðst. „Ég skipti þeim út af vegna þreytu - ekki vegna þess að þeir voru að spila illa. Ég þurfti að gera breytingar og hefði getað gert fleiri vegna þess að sóknarmennirnir voru líka þreyttir.“

„Það er vísindalega sannað að leikmenn geta ekki jafnað sig á tveimur sólarhringum eftir leiki. Við sáum áhrif þess í dag.“

Herrera kom til United fyrir 28,8 milljónir punda frá Athletic Bilbao í sumar og hefur verið í byrjunarliði félagsins í aðeins einum leik af síðustu tólf.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×