Körfubolti

Hélt lífi í tímabilinu með flautkörfu úr nær ómögulegri aðstöðu | Myndband

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Myndin er úr körfuboltaleik í Frakklandi en tengist fréttinni ekki beint.
Myndin er úr körfuboltaleik í Frakklandi en tengist fréttinni ekki beint. Vísir/AFP
Bastien Pinault skoraði á dögunum eina ótrúlegustu flautukörfu seinni tíma í úrslitakeppni frönsku b-deildarinnar í körfubolta.

Þetta var oddaleikur á milli Evreux og Boulazac um sæti í úrslitaeinvíginu og fór hann fram á heimavelli Evreux. Evreux tapaði fyrsta leiknum á heimavelli en tryggði sér oddaleik með sigri á heimavelli Boulazac í leik tvö.

Evreux, lið Bastien Pinault, var að reyna að vinna leikinn á þriggja stiga skoti en liðfélagi hans klikkaði á skotinu.

Bastien Pinault náði frákastinu en var kominn í nær vonlausa stöðu fyrir aftan spjaldið og enginn tími til að koma sér í betri stöðu.

Bastien Pinault gafst þó ekki upp ráðalaus og skaut fyrir aftan körfuna og boltinn fór rétta leið um leið og lokaflautið gall.

Pinault hafði klikkað á öllum sex skotum sínum í leiknum á undan en nú hafði hann heldur betur heppnina með sér.

Evreux jafnaði þar með leikinn og tryggði sér síðan sigur í framlengingu. Bastien Pinault skoraði 12 stig á 21 mínútu  í þessum leik og hitti úr 4 af 9 skotum sínum. Það voru hinsvegar þessi tvö stig rétt fyrir leikslok sem komu kappanum í heimsfréttirnar.

Bastien Pinault og félagar mæta liði Le Portel í lokaúrslitunum.

Það er hægt að sjá þessa mögnuðu jöfnunarkörfu Bastien Pinault hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×