Innlent

Helmingi færri vilja fara í kennaranám

María Lilja Þrastardóttir skrifar
Grunnskólabörn í útikennslu.
Grunnskólabörn í útikennslu. Mynd/GVA
Heildarfjöldi umsókna í kennaranám hefur hrunið um helming á sex árum, frá 2006. Aðeins 203 sóttu um skólavist í fyrra. Þá var 13 hafnað um skólavist en 156 árið 2003.

Námið var lengt árið 2011 og nær nú á meistarastig. Þá hafa launin ekki hækkað í samræmi við menntun.

„Við viljum trúa því að botninum hafi verið náð,“ segir Anna Kristín Sigurðardóttir, deildarforseti kennaradeildar.

Árið 2012 sóttu 203 um einhverja af þremur námsleiðum grunnskólakennslu í kennaradeild Háskóla Íslands. Til samanburðar sóttu 419 manns um sams konar nám árið 2006. Aðeins 13 var hafnað um skólavist í fyrra en 156 árið 2003.

Farið var í undirbúningsvinnu við breytingar á náminu árið 2006 og var námsleiðum síðan breytt árið 2011 og grunnskólakennslan sundurliðuð sama ár. Nú er boðið upp á þrjár námsleiðir. Þá var námið einnig lengt um tvö ár og aðeins boðið upp á kennsluréttindi á meistarastigi. Fari fram sem horfir mun lítil endurnýjun eiga sér stað innan stéttarinnar.

Ólöf Rut Halldórsdóttir, kennaranemi og formaður nemendafélags kennaradeildarinnar, Kennó, segir það ekki hafa verið mistök að lengja námið. Þó hefðu laun þurft að hækka í samræmi við auknar námskröfur.

„Ég veit ekki alveg hvað veldur þessari gríðarlegu fækkun en mín ágiskun er sú að þetta sé vegna lengingar námsins og lélegra kjara. Það er ekki boðið upp á laun í samræmi við lengd námsins,“ segir Ólöf Rut.

Anna Kristín segir margar ástæður liggja að baki en launakjör spili þar stóran þátt. „Hér áður fóru margir í kennaranám þar sem það var þverfaglegt en það fólk var ekki endilega að skila sér í starfið.“

Anna Kristín segist óttast litla nýliðun einnig á meðal leikskólakennara. Umsóknum hafi þar einnig fækkað mjög. Í fyrra sóttu 63 um í deildina, til samanburðar sóttu 204 um árið 2006.

„Það sem er brýnast núna er að hækka launin í stéttinni. Það gefur augaleið að fólk velur sér síður langt nám fyrir léleg laun,“ segir Anna Kristín.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×