Sport

Heimsmeistararnir voru launalausir í þrjú og hálft ár

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Bandarísku stelpurnar eru bestar.
Bandarísku stelpurnar eru bestar. vísir/getty
Leikmenn bandaríska kvennalandsliðsins í íshokkí eru hættir við að fara í verkfall en til stóð hjá þeim að mæta ekki til leiks á HM kvenna sem hefst í Bandaríkjunum eftir tvo daga.

Liðið hefur staðið í deilum við bandaríska íshokkísambandið í rúmt ár en leikmennirnir hafa krafist hærri launa og meiri stuðning við liðið og grasrótina í íshokkí kvenna vestanhafs.

Leikmennirnir og forsvarsmenn íshokkísambandsins komust loks að samkomulagi en samningurinn var ekki gerður opinber. „Við stóðum upp fyrir rétti okkar og þeir hlustuðu,“ segir Meghan Duggan, fyrirliði bandaríska liðsins. BBC greinir frá.

Auk þess að fá hærri laun verður meira gert fyrir liðið er varðar markaðs- og kynningarstarfsemi og þá verður meira lagt í grasrótina, að því fram kom í fréttatilkynningu frá bandaríska íshokkísambandinu.

Margir leikmenn kvennaliðsins bandaríska kvörtuðu sáran yfir því þessa fjórtán mánuði sem deilan stóð yfir að þeir fengu aðeins 1.000 dali á mánuði (111.000 krónur) í sex mánuði yfir síðasta Ólympíuferli. Konurnar voru svo launalausar í hálft fjórða ár þrátt fyrir að vera alltaf í undirbúningi fyrir Ólympíuleikana.

Bandaríska liðið mun nú mæta út á ísinn þegar HM hefst en það er ríkjandi heimsmeistari og hefur titilvörnina gegn Kanada á morgun. Bandaríkin hafa orðið heimsmeistari kvenna í íshokkí á sex af síðustu átta mótum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×