Innlent

Heimdallur mun ekki styðja ríkisstjórn undir forsæti Sigmundar Davíðs

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Heimdallur, félag ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík, lýsir vantrausti á Sigmund Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra í ljósi upplýsinga sem hafa komið fram um eignarhald hans í aflandsfélagi á Bresku Jómfrúaeyjunum. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá félaginu.

Í henni segir að Heimdallur muni ekki styðja ríkisstjórn undir forsæti Sigmundar Davíðs enda sé alvarleiki málsins slíkur að honum er ekki sætt á stóli forsætisráðherra.  

„Ekki kemur annað til greina en Sigmundur Davíð segi af sér embætti. Hann hefur nú þegar stórskaðað íslenska hagsmuni. Heimdallur mun ekki styðja ríkisstjórn undir forsæti Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar.“

Í yfirlýsingu Heimdallar er ekkert minnst á formann Sjálfstæðisflokksins, Bjarna Benediktsson, en hann átti einnig fjármuni í aflandsfélagi. Í umfjöllun Kastljóss í gær var greint frá því að félagið hafi ekki verið afskráð að fullu árið 2012. Í viðtali við mbl.is í dag segir Bjarni ekki kunna skýringar á því enda hafi hann ekki séð nein gögn um það.

Þá er heldur ekkert minnst á Ólöfu Nordal, varaformann flokksins, eða Júlíus Vífil Ingvarsson, borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, en fram hefur komið að þau hafi bæði tengst aflandsfélögum. Þannig á Júlíus Vífill vörslusjóð sem skráður er á Panama en Júlíus hefur sagt að sjóðurinn hafi verið stofnaður sem eftirlaunasjóður.

Í samtali við Vísi segir Albert Guðmundsson, formaður Heimdallar, að þessir þrír sjálfstæðismenn þurfi að skýra sín mál betur fyrir þjóðinni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×