Innlent

Heill bær í Connecticut á uppboði

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Eitt af húsunum í bænum.
Eitt af húsunum í bænum.
Ef þig hefur alltaf langað til að leggja undir þig heilan bæ er tækifærið núna. Johnsonville í Connecticut í Bandaríkjunum hefur verið settur á uppboð. Talsvert líf var í bænum á nítjándu öld en hefur síðan hægt og rólega lagst í eyði.

Það er þó kannski ekki í hvers manns hendi að kaupa bæinn. Lágmarksboð í hann eru 800 þúsund dalir, jafnvirði um 96 milljóna króna.

Milljónamæringur að nafni Ray Schmitt keypti bæinn á sjöunda áratug síðustu aldar og hóf enduruppbyggingu hans, að því er segir í fréttatilkynningu um söluna. Ætlunin var að byggja upp ferðamannastað en það virðist ekki hafa gengið eftir.

Schmitt lést árið 1998 en síðan þá hafa nokkur verkefni varðandi bæinn runnið út í sandinn. Er því brugðið á það ráð nú að bjóða hann einfaldlega upp í heilu lagi.

Í þorpinu eru átta byggingar. Þar á meðal eru íbúðarhús, verslunarrými og kapella auk viðarstíflu. Hægt er að bjóða í bæinn frá 28. október næstkomandi. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×