Innlent

Hefur ekki áhyggjur af okri í ferðaþjónustunni

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Umrædd kaka sem Logi birti á Facebook-síðu sinni. Inga Hlín vinnur hjá Íslandsstofu.
Umrædd kaka sem Logi birti á Facebook-síðu sinni. Inga Hlín vinnur hjá Íslandsstofu.
Logi Einarsson bæjarfulltrúi á Akureyri hefur áhyggjur af því að Ísland sé að verðleggja sig allt of hátt sem ferðmannaland og talar hann um okur. Íslandsstofa deilir þó ekki þessum áhyggjum Loga

Loga brá illilega í brún þegar hann keypti sér súkkulaðikökusneið á veitingastað á Mývatni og þurfti að greiða fyrir tæplega þrettán hundruð krónur. Hann hafði orð á þessu við starfsstúlkuna sem sagði að þangað kæmu aldrei Íslendingar.

Svo virðist sem við stefnum hraðbyri í tvöfalda verðlagningu, eina fyrir erlenda ferðamenn og hina fyrir innfædda. Logi hefur áhyggjur af því að gírugir veitingamenn séu að reita stélfjaðrirnar af gullhænunni, þeirri sem ferðaþjónustan er, sem er nú orðinn einn stærsti atvinnuvegur landsins.

Vísir greindi frá málinu í gær og síðan þá hafa streymt til fréttastofunnar reynslusögur af því sem óhætt er að kalla okur á mörgum helstu ferðamannastöðum landsins. Og fylgir þá gjarnan sögunni áhyggjur af því að ferðaþjónustan sé að keyra sig um koll með hárri verðlagningu.

Inga Hlín Pálsdóttir hjá Íslandsstofu deilir hins vegar ekki þessum áhyggjum.

„Ég deili alls ekki þeim áhyggjum með Loga um erlenda ferðamenn. Við verðum líka að vara okkur að verðleggja okkur ekki of lágt í því sem við erum að gera. Við erum alls staðar að bjóða upp á góða þjónustu og fáum hvar sem er viðurkenningar fyrir það að vera gestrisin þjóð – eins og World Economic Forum sagði í fyrra þá erum við gestrisnasta þjóð í heimi. Við fáum út úr okkar viðhorfsrannsóknum að fólk er bara mjög ánægt með áfangastaðinn og ég held að við þurfum að halda áfram því góða starfi sem við höfum verið að vinna síðustu árin.

Og þið hjá Íslandsstofu kannist ekki við það að erlendir ferðamennséu að tala um það að hér ríki okurástand?

„Nei, alls ekki.  Að sjálfsögðu koma einhverjir ferðamenn sem segja að það sé dýrt á Íslandi en við vitum að Ísland er ekki ódýr áfangastaður. Við höfum ekki fengið kvartanir, alla vega ekki til okkar varðandi græðgi eða neitt slíkt. Grægði eða okur, það orðalag hefur ekki verið notað í þeim fyrirspurnum sem hafa komið til okkar.

Inga Hlín segir allt markaðsstarf miðast við að hingað komi betur stæðir ferðamenn - enda gefi slíkir mest af sér.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×