Innlent

Harma að landsleikur fari fram: „Í skjóli landsráns og mannréttindabrota“

Stefán Árni Pálsson skrifar
visir/daníel/ap
Hreyfingin BDS harmar að Handknattleikssamband Íslands taki á móti ísraelska landsliðinu í handknattleik í dag.

Íslenska landsliðið í handknattleik tekur á móti því ísraelska í undankeppni Evrópumótsins í Laugardalshöllinni í kvöld.

Samtökin vekja athygli á því í tilkynningu að á sama tíma og Ísland gengst inn á að taka þátt í sameiginlegum kappleikjum með Ísrael, þverbrjóta ísraelsk stjórnvöld alþjóðalög og mannréttindasáttmála, sem bæði Ísrael og Ísland eiga aðild að, sem og samþykktir Sameinuðu þjóðanna með áratuga löngu hernámi og landráni í Palestínu. 

„Nýjustu fréttir herma að ísraelsk stjórnvöld láti almenna óánægju víðs vegar um heiminn ekkert á sig fá og hyggur á áframhaldandi víðtækt landrán með því að byggja þúsundir nýrra kolólöglegra landtökubyggða í Austur-Jerúsalem, á landi sem tilheyrir Palestínumönnum,“ segir í tilkynningunni.

Hreyfingin BDS hefur áður bent á að ísraelsk landslið séu fulltrúar ríkis sem stundi grimmilegar árásir á óbreytta borgara í Palestínu, hernám og landrán á palestínsku landi eins og segir í tilkynningunni.

„Herskylda í Ísrael er þrjú ár fyrir karlmenn og tvö ár fyrir konur – og því er verið að bjóða hér velkomna tilvonandi og fyrrverandi hermenn í her sem stundar mannréttindabrot og hefur að mati mannréttindasamtaka stundað stríðsglæpi í innrás sinni á Gasa síðasta sumar.“

BDS Ísland segir það beinlínis andstætt íþróttaandanum að bjóða ísraelskt landslið velkomið til Íslands, á meðan komið er í veg fyrir að palestínskir íþróttamenn geti stundað íþróttir eða leikið fyrir land sitt og þjóð.

„Hernám Ísraelshers í Palestínu og skerðing á ferðafrelsi íbúa herteknu svæðanna – sem og árásir á íþróttafólk, fangelsanir og eyðilegging á íþróttamannvirkjum – kemur í veg fyrir að palestínsk landslið og íþróttamenn geti keppt í sínu heimalandi og í fjölmörgum tilvikum á erlendum vettvangi. Dugar þar að líta til palestínska karlalandsliðsins í knattspyrnu, en liðsmenn þess hafa verið fangelsaðir og neitað um ferðaheimildir.“

Hreyfingin BDS Ísland hvetur Handknattleikssamband Íslands, Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands, sem og íslensk stjórnvöld, til að beita sér fyrir sniðgöngu gagnvart Ísrael á vettvangi íþróttakappleikja og öðrum samstarfsvettvangum þangað til hernámi, aðskilnaðarstefnu, mannréttindabrotum og ofbeldi Ísraelsmanna gagnvart Palestínumönnum, muni ljúka.

BDS Ísland, sniðganga fyrir Palestínu, er hreyfing sem nýlega var stofnuð á Íslandi. Tilgangur hreyfingarinnar er að svara alþjóðlegu ákalli Palestínumanna um sniðgöngu og þvinganir gegn ísraelskum stjórnvöldum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×