Körfubolti

Hardy flutt á sjúkrahús eftir svæsna krampa

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Lele Hardy í leik með Haukum í haust.
Lele Hardy í leik með Haukum í haust. Mynd/Daníel
Lele Hardy, leikmaður Hauka í Domino's-deild kvenna, var flutt á sjúkrahús eftir leik liðsins gegn Snæfelli í Stykkishólmi í fyrrakvöld.

Bjarni Magnússon, þjálfari Hauka, staðfesti þetta við Vísi í dag. Hardy fékk slæma vöðvakrampa eftir leikinn sem stóðu lengi yfir. Svo lengi að viðstaddir höfðu áhyggjur.

„Ég er búinn að vera í sportinu í nokkuð mörg ár en ég hef aldrei fyrr séð leikmann fá svona svæsna vöðvakrampa. Við vildum því vera öruggir og kölluðum til lækni sem færði hana á sjúkrahús til frekari skoðunar,“ segir Bjarni.

Hardy hefur verið útskrifuð af sjúkrahúsinu og er komin aftur í Hafnarfjörð. Hún hittir sérfræðing síðar í dag þar sem hún fær frekari upplýsingar um ástæður krampanna.

„Hún var ekki búin að drekka nóg af vökva um daginn og okkur finnst líklegast að það sé bæði álagi og næringarskorti um að kenna. Henni líður betur með hverjum deginum og það er góðs viti.“

„Sem betur fer gerðist þetta áður en við lögðum að stað. Við vorum að borða í bænum og það er betra að þetta gerðist þá en upp á miðri heiði,“ segir Bjarni.

Bjarni Magnússon, þjálfari Hauka.Mynd/Daníel
Haukar mæta Hamri í síðasta leik sínum fyrir jólafrí á föstudagskvöldið en Bjarni á ekki von á því að Hardy verði með Haukum í leiknum. „Ég hafði nú ekkert leitt hugann að því en ég reikna ekki með því á þessari stundu,“ bætti Bjarni við.

Hardy er langstigahæsti leikmaður deildarinnar með 403 stig í þrettán leikjum, eða 31 stig að meðaltali. Hún hefur einnig tekið flest langflest fráköst (261 alls, 20,1 að meðaltali) og er í 2.-3. sæti fyrir stoðsendingar (79 alls, 6,1 að meðaltali)

Hardy skoraði 40 stig þegar að Haukar töpuðu fyrir Snæfelli, 88-75.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×