Innlent

Hannes segir Davíð skotmark verstu og mestu rógsherferðar Íslandssögunnar

Jakob Bjarnar skrifar
Rógtungurnar sem áður voru launaðar tóku það að sér nú í sjálfboðavinnu að rægja Davíð, ef marka má Hannes Hólmstein.
Rógtungurnar sem áður voru launaðar tóku það að sér nú í sjálfboðavinnu að rægja Davíð, ef marka má Hannes Hólmstein.
Hannes Hólmsteinn Gissurarson stjórnmálafræðiprófessor gerir upp forsetakosningarnar í pistli. Þar leitar hann meðal annars svara við spurningunni hvers vegna Davíð Oddsson, ritstjóri Morgunblaðsins og forsetaframbjóðandi, fékk ekki meira fylgi en raun bara vitni. Hannesi kom það nokkuð á óvart.

Hannes telur skýringarnar einkum vera þær að Davíð Oddsson hefur að hans mati mátt sæta meiri rógi en dæmi eru um í Íslandssögunni. Og þar hafa margir lagst á árar.

„Davíð hlaut minna fylgi en ég hafði búist við. En þá ber að minnast þess, að hann var allt frá 2002 skotmark mestu og verstu rógsherferðar, sem háð hefur verið á Íslandi gegn einstaklingi. Í upphafi var þessi herferð skipulögð og kostuð af auðklíku, sem taldi hann andsnúinn sér, en síðan öðlaðist rógurinn eigið líf eins og verða vill og stakk sér niður í sálir manna, sem vissu ekkert um það, af hvaða hvötum hann var settur af stað,“ skrifar Hannes, og ef marka má fyrri orð hans er hér væntanlega um að ræða Baugsveldið og 365 miðlar.

Hannes heldur áfram og er nú ósammála Davíð sjálfum, sem lét í það skína í kosningabaráttunni, til að mynda í síðustu kappræðum frambjóðenda í Ríkissjónvarpinu, að hinn meinti rógur væri að undirlagi ónefndra mótframboða sinna; Hannes tekur heimspekilegri afstöðu til þess hvernig þessi mesta rógsvél Íslandssögunar mallar.

„Þeir, sem í upphafi voru launaðir til að láta ganga róginn, drógu ekki heldur af sér í þessari kosningabaráttu, þótt nú væru þeir líklega sjálfboðaliðar frekar en málaliðar. (Ég tek fram, að ég tel hæpið, að þessir sjálfboðaliðar hafi starfað á vegum annarra framboða: Þeir létu róginn ganga af sjálfsdáðum, ef til vill sem sjálfsréttlætingu á eigin fortíð.)“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×