Körfubolti

Halda upp á tuttugu ára afmælið með oddaleik á sama stað

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jón Axel Guðmundsson, sonur Guðmundar Bragasonar.
Jón Axel Guðmundsson, sonur Guðmundar Bragasonar. Vísir/Daníel
Grindavík og Njarðvík mætast í kvöld klukkan 19.15 í Röstinni í Grindavík í úrslitaleik um sæti í lokaúrslitum Dominos-deildar karla á móti KR. Njarðvík tryggði sér oddaleik með 77-68 sigri á Grindavík í leik fjögur.

Það eru liðin tuttugu ár og einum degi betur frá eftirminnilegum oddaleik Grindavíkur og Njarðvíkur í Röstinni í Grindavík en 16. apríl 1994 mættust þau í hreinum úrslitaleik um Íslandsmeistaratitilinn.

Grindavík var 2-1 yfir í einvíginu en steinlá í leik fjögur í Njarðvík. Grindavík var einnig 59-51 yfir í oddaleiknum en Njarðvíkurliðið vann lokamínúturnar 17-8 og tryggði Rondey Robinson Njarðvík titilinn á vítalínunni.

Guðmundur Bragason (Grindavík) og Friðrik Ragnarsson (Njarðvík) voru í stórum hlutverkum með sínum liðum í þessum leikjum fyrir 20 árum og svo skemmtilega vill til að synir þeirra mætast í leikjunum í ár.

Elvar Már Friðriksson er lykilmaður hjá Njarðvík og Jón Axel Guðmundsson er að spila mjög mikilvægt hlutverk hjá Grindavík.

Þar að auki hafa yngri bræður þeirra, RagnarHelgiFriðriksson og IngviÞórGuðmundsson, einnig komið við sögu í einvíginu.

Leifur Garðarsson dæmir leikinn í Grindavík í kvöld en svo skemmtilega vill til að hann dæmdi einnig leikinn fyrir tuttugu árum þá með Kristni Albertssyni.

Það má búast við troðfullu íþróttahúsi í Grindavík í kvöld og eins gott fyrir áhugasama að mæta snemma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×