Viðskipti innlent

Hagnaður Vodafone jókst um 192%

Haraldur Guðmundsson skrifar
Mynd/Pjetur.
Hagnaður Vodafone nam 415 milljónum króna á þriðja ársfjórðungi þessa árs og jókst um 192%.

Rekstrarhagnaður fjarskiptafyrirtækisins (EBITDA) nam 990 milljónum króna og hefur aldrei verið meiri á einum ársfjórðungi samkvæmt tilkynningu um uppgjör Vodafone.

Tekjur fyrirtækisins hækkuðu um eitt prósentustig frá sama tímabili í fyrra og handbært fé þess hefur að sögn félagsins aldrei verið hærra.

Ómar Svavarsson, forstjóri Vodafone, segir í tilkynningunni að fjárhagsstaða Vodafone sé afar sterk.

„Eiginfjárhlutfallið hefur aldrei verið hærra, handbært fé hefur aldrei verið meira og skuldsetning félagsins er hófleg. Þrátt fyrir að ákveðin óvissa ríki um ýmsa ytri þætti sem haft geta áhrif á reksturinn þá verður spennandi verkefni að takast á við síðasta fjórðung ársins.

Þriðji ársfjórðungur ársins 2013 var sérlega góður í rekstri Vodafone. Allar helstu kennitölur rekstrarins eru jákvæðar, hvort sem litið er til tekna, kostnaðar, framlegðarhlutfalls, EBITDA, fjármagnsliða eða hagnaðar. EBITDA hagnaður hefur aldrei verið meiri á einum ársfjórðungi og hagnaðurinn nærri þrefaldast frá sama tímabili í fyrra. Við erum hæstánægð með þennan árangur, sem er afrakstur markvissrar vinnu starfsfólks Vodafone síðustu misseri," segir Ómar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×